Saga félagsins

Söguágrip Kvenfélagsins Heimaeyjar

Upphafið að stofnun kvenfélagsins Heimaeyjar var er frú Jónína Jónsdóttir, kona Kristmanns Þorkelssonar, bauð nokkrum konum frá Vestmannaeyjum heim til sín að Seljavegi 25 í Reykjavík. Ræddu þær m.a. um hvað það væri leiðinlegt að konur frá Eyjum hittust sjaldan. Þyrfti helst að stofna félag fyrir konur ættaðar frá Vestmannaeyjum og þær sem hefðu verið búsettar þar. Þær ákváðu því að boða til stofnfundar 9. apríl 1953, í félagsheimili V.R.
Fyrsti stofnfundur var svo haldinn þann dag, félag stofnað og kosin stjórn.
Jónína Jónsdóttir setti fundinn. Kosin var fyrsta stjórnin og í henni voru: formaðurinn sem var Kristín Ólafsdóttir, ritari var Huld Kristmannsdóttir, gjaldkeri Stella Eggertsdóttir og meðstjórnandi Stella Guðmundsdóttir. Ritari fyrsta fundar var Selma Antoníusardóttir. Það voru 38 konur sem sátu fundinn. Árgjald var ákveðið 15 krónur.
Þann 4. maí. sama ár var svo haldinn fyrsti fundurinn. Sennilega hafa konur hugsað líkt og Ási í Bæ, í kvæði sínu “Heima.”

Hún rís úr sumar sænum,
í silki mjúkum blænum,
með fjöll í feldi grænum,
mín fagra Heimaey.

Félagið fékk nafnið, “ Kvenfélagið Heimaey ” og var endanlega gengið frá stofnun þess.
Aðal markmið félagsins voru; líknarstörf, styrkja sjúka og efnalitla en einnig hafði félagið þann tilgang að konur frá Vestmannaeyjum hittust, kynntust og skemmtu sér. Greinilegt er á fundargerðarbókum frá þessum tíma að mesta áherslan hefur verið lögð á fjáröflun og voru basarar ein af helstu tekjuöflunarleiðum félagsins. Unnu þá konurnar ýmislegt sem var selt þar. Einnig létu þær t.d. prjóna barnaboli og saumuðu svo saman á fundum.
Aðalmarkmið félagsins hefur alltaf verið fyrst og fremst að styrkja þá sem eiga í erfiðleikum vegna veikinda, og þá sérstaklega börn. Einnig að færa sjúkum og öldruðum á Stór-Reykjavíkursvæðinu glaðning fyrir jólin.

Einnig vann Kvenfélagið Heimaey mikið sjálfboðaliðastarf þegar eldgosið í Heimaey stóð yfir árið 1973. Um leið og það fréttist að búið væri að opna Hafnarbúðir til afnota fyrir Vestmannaeyinga, voru þær komnar af stað, til að útvega eitthvað matarkyns, brauð, álegg, kaffi og fl. Þarna voru svo Heimaeyjarkonur til staðar meðan mestu ósköpin gengu yfir. Það var ekki bara matur og kaffi sem þær hresstu fólkið með, það var ekki síður hlýja þeirra og umhyggja, sem fólk þurfti á að halda þarna. Í fundargerð frá 15.júní 1973 segir: “ Að jafnaði unnu um 140 konur á viku í Hafnarbúðum.”

Ómissandi þáttur í starfi félagsins er “ Lokakaffið.” Þar sem félagskonur halda kaffiveislu fyrir Vestmannaeyinga. Dagsetninguna er reynt að miða næst því sem áður var kallað lokadagur – þ.e. vertíðarlok. Á þessum degi eru allar félagskonur boðnar og búnar til að baka og vinna við framreiðslu. Ágóðinn rennur að sjálfsögðu í líknarstarfið.

Basarar eru sem áður árviss viðburður en nú í seinni tíð hefur þetta orðið köku, kerta, og kortasala í byrjun desember.

Félagið hefur haldið margar veglegar og skemmtilegar árshátíðir og sérstaklega verið vandað til afmælishátíða.

Sumarferðalögin, sem farin eru árlega, dags- eða helgarferðir, eru ómissandi og svo hafa konur líka nokkrum sinnum skroppið út fyrir landsteinana.

Það hefur alltaf ríkt góður andi í félaginu og það er engin deyfð á fundum. Ánægjulegt er að yngri konur sýna félaginu áhuga enda ekkert kynslóðabil til þegar unnið er að góðum málefnum.
Comments