Minningar frá Vestmanneyjum

árin 1951-52
eftir Gyðu Steingrímsdóttur
Flutt á fundi hjá kvenfélaginu Heimaey 2004

Það hefur sjálfsagt margt komið ykkur spangst fyrir sjónir þegar þið fluttuð upp á land frá Vestmannaeyjum. Þar sem þið flestar voruð uppaldar í frjálsu en jafnframt vernduðu umhverfi.

Það var margt sem kom mér mjög spangst fyrir sjónir í Vestmanneyjum þegar ég kom þangað fyrst. Margir siðir, venjur, málfar og matur svo eitthvað sé nefnt.

Á íþróttafélögunum var skýr skipting. Krakkarnir skiptust í tvennt; Þór og Týr. Þórarar voru svo bláir að þeir átu aldrei grænar baunir og Týrarar gengu aldrei í bláum gallabuxum. Heima var bara Skallagrímur og engir búningar!
Ég var spurð; “ertu í Þór eða Tý?” Ég sagði: “veit það ekki mér er alveg sama, ætli ég sé ekki bara í Þór”. “Ekki hélt ég að þú værir skrítin” svaraði sú sem spurði, greinilega Týrari. Eftir það var ég alltaf í Í.B.V. og allir ánægðir.
Þórarar fullyrtu að guð væri í Þór, alltaf gott veður á Þórs þjóðhátíð. Týrarar fullyrtu að það væri alltaf fleiri á Týs þjóðhátíð og alltaf meira gaman. Ég sá engan mun, alltaf jafn gaman.

Einu tók ég eftir fljótlega, fyrsta vorið mitt í Eyjum. Fólk talaði um að fara drífa sig til Sölva, sérstaklega ef veðrið var gott.
“Hver skyldi hann vera þessi Sölvi sem sem allir eru að heimsækja, ætli hann sé skósmiður eða skreðari?” hugsaði ég. 
Ég spurði; “hver er Sölvi sem allir eru að heimsækja?”.
- “Hvaða Sölvi?” - enginn þekkti neinn Sölva, nema kannski Sölva í Batavíu og það var svo sem ekkert sérstaklega verið að heimsækja hann. 
- “það eru allir að tala um að fara til Sölva”. 
- “þú meinar að fara í söl” - og mikið var hlegið að sveitastelpunni sem aldrei hafði heyrt eða séð söl. Lærði reyndar aldrei að þekkja sundur söl og þara og aldrei lærði ég að borða þessi ósköp. En krakkarnir mínir urðu vitlaus í þetta.

Þið hafið sjálfsagt heyrt um Vestmannaeyinginn sem fór til Ástralíu að heimsækja bróður sinn sem bjó þar um tíma. Hann hafði með sér stórann hvítann poka fullann af söl (þið munið söl var alltaf geymd í hvítum léreftspokum). Þetta var á þeim árum þegar eiturlyfin voru að byrja að flæða yfir heiminn, nema hvað, okkar maður var kyrrsettur í einni flughöfninni fyrir stórfellt eiturlyfjasmygl. Alveg nýtt eiturlyf, skrýtilega lyktandi og öðruvísi en allt sem þeir í Ástralíu höfðu séð. Maðurinn var settur í einangrun á meðan að hluta af eiturefninu var komið í efnagreiningu. Hann varð svangur í einverunni og fékk sér söl. Heimamenn fylgdust með; maðurinn fór ekki í neitt rúss og ekki sofnaði hann, rannsóknarstofan þekkti þetta efni ekki svo hann slapp með skrekkinn og bróðirinn fékk söl.

Og talandi um mat. Allur þessi fugl sem etin var í Eyjum; Lundi, Svartfugl, Súla, Fýll -bara nefndu það. Sóttu þetta út í allar eyjar. “Ætli þeir eti mófuglinn líka” hugsaði ég en þorði ekki að spyrja. Heima hjá mér var ekki einu sinni etnir kjúklingar á þessum árum, um miðja síðustu öld. Við átum bara venjulegt kjöt og fisk.
Ég sauð 10 sviðahausa fyrir hverja þjóðhátíð þegar heimamenn suðu 30-50 Lunda ýmist steiktann eða reyktann.

Eða eggin - öll þessi marglitu egg, græn með svörtum doppum, græn með engum doppum eða græn með brúnum doppum, bara hvað viltu?
- “Hvaðan koma öll þessi egg?” spurði ég. Ég hafði aldrei séð nema hvít og nett hænuegg og fannst þatta alveg óskaplegt, bæði stærðin og litirnir.
Fólkið var jafn hissa; 
- “þetta eru úteyja egg” 
- “og til hvers” spurði ég 
- “þau eru svo góð” var svarið.
Ég var í þeirri aðstöðu fyrsta sumarið mitt í Eyjum að ég tók á móti slatta af svona eggjum og sauð strax nokkur. Þegar heimafólk fór að borða þessa risa fékk ég nóg af lyktinni, reyndi aldrei að smakka. En öllum hinum fannst þetta herramannsmatur.

Kaffið, það fannst mér ótrúlega vont í fyrstu. Fólkið sagði; “það er rigningavatnið sem gerir kaffið svona öðruvísi” en ég komst fljótlega að því að það var dósamjólkin sem notuð var út í kaffið sem gerði það svona vont. Ég hætti snarlega að nota mjólk í kaffið og síðan hef ég hvergi fengið betra kaffi en í Vestmanneyjum.

Ég fann það strax þegar ég kom til Eyja að þar kunni fólk að skemmta sér. Ég hafði farið á böll í Reykjavík og skynjaði þegar ég kom á ball í samkomuhúsinu í Eyjum að böllin í Reykjavík voru eins og jarðarfararböll miðað við fjörið í Vestmannaeyjum. Öll þessi gleði, allur þessi söngur, öll þessi kátína í fólkinu og allir með, líka þeir aðkomnu. Ég var fljót að komast inn í mannlífið og samlagast krökkunum.

Fyrsta Þjóðhátíðin: Stórkostleg upplifun, þá var á laugardagskvöldinu varðeldur og söngur sem skátarnir sáu um en allir voru að sjálfsögðu með. Þetta er mér minnistætt. Þetta var það skemmtilegasta sem ég hafði tekið þátt í. Ég hafði lesið um skáta, varðelda, söng og gítarspil - heyrt þetta í útvarpinu - en þetta var fyrsti varðeldurinn sem ég sá og í fyrsta skipti sem ég tók þátt í svona fjöldasöng, þessu kvöldi gleymi ég ekki.

Vestmannaeyingar syngja mikið, þeir tala líka skemmtilega, tala hratt og ég tók sérstaklega eftir því í fyrstu hvað margir höfðu syngjandi rödd. Mamma sagði þegar ég kom heim eftir fimm mánaða dvöl í Eyjum að ég hefði gjörbreytt um málfar. Talaði helmingi hraðar en áður, þriðjungi hærra og syngi næstum hvert orð. Svona var ég áhrifagjörn.
Það var margt í málfari Eyjamanna sem mér fannst skondið, eins og þeir fóru alltaf uppúr og niðrúr, austurúr og vesturúr ekki uppeftir eða niðureftir. Einhverju sinni spurði ég 
- “niðrúr hverju” þegar krakkarnir sögðu:
- “komum niðrúr” 
- “Hva bara niðrúr á rúntinn eða eitthvað” var svarið, ekkert til að gera veður út af.

Eða hvað margir voru undan fjöllunum, næstum annar hver maður! 
- “bíddu ég var bara undan mömmu og pabba” hugsaði ég og spurði; 
- “hvernig getur fólk verið undan fjöllum?”
- “það átti heima undir fjöllunum” var svarað 
- “í hellum” spurði ég
- “nei bara undir fjöllunum” sagði fólkið hissa á hvað ég var treg. Seinna lærði ég að fólkið var frá hinum ýmsu bæjum framundan Eyjafjöllum.

Í lokin, ein saga um skemmtilegt talmál í Vestmannaeyjum sem ekki allir skilja:
Ég var að vinna í kaupfélaginu, búsáhalda- og íþróttadeild. Frænka mín úr Reykjavík var stödd hjá mér í búðinni þegar kona opnar dyrnar og kallar:
- “Gyða, áttu Þórs Tríkot á stubb?”
- “nei því miður, bara Týs” svara ég 
- “allt í lagi” sagði konan fór út og lokaði.
- “Hvað var konan að tala um?” spurði frænkan 
- “ Þórs Tríkot á stubb” endurtók ég 
- “já en hvað þýðir það?” spurði frænkan.
Ég þurfti aðeins að hugsa mig um, þetta var orðið hið eðlilegasta talmál fyrir mér. Ekkert athugavert við þessa spurningu .

Hvað var hún að spyrja um kæru Vestmanneyjakonur?

Svona var nú þetta í mínum augum. En alltaf gaman.

Gyða Steingrímsdóttir.

P. S. Hún var að biðja um bláan íþróttagalla á 6 ára barn.

Comments