Kvenfélagið Heimaey Ágætu gestir. Fyrir hönd okkar Heimaeyjarkvenna býð ég ykkur velkomin hingað á Grand Hótel til að eiga með okkur skemmtilega stund. Það eru 37 ár síðan við buðum upp á fyrsta Vestmannaeyjakaffið og allar götur síðan höfum við boðið eldra Eyjafólki upp á kaffi og kræsingar, sunnudaginn næstan við 11. maí. Í fyrstu buðum við 67 ára Eyjafólki og eldra. Kvenfélags konur sáu alfarið um allan bakstur, smurðu flatkökur sem þau Steina og Rikki hafa gefið félaginu, bökuðu pönnukökur og gerðu þetta að eins veglegri veislu og við frekast gátum. Þetta spurðist út og Eyjafólk á fastalandinu hefur verið duglegt að koma til okkar þennan dag og það hefur alltaf verið gaman. Einnig finnst okkur ljúft þegar fólkið okkar, sem býr út í Eyjum og er statt upp á landi kíkir til okkar og rifjar upp gamlar og góðar minningar. Við segjum stundum að þessi dagur minni á stórt ættarmót. Enda Eyjafólk þekkt fyrir að draga ekkert af sér þegar á að gera sér dagamun. Salurinn ómar eins og í fuglabjargi. 1973 í Gosinu varð heldur betur sprengja, við dekkuðum Súlnasalinn tvisvar og fylltum alla hliðarsali, það voru yfir hundrað konur, sem bökuðu og sáu um annað meðlæti. Þarna fórum við að miða tímann við Lokadaginn, sem var stór dagur í fiskibænum Vestmannaeyjum þegar við vorum stelpur heima í Eyjum. Og síðan þá tölum við alltaf um Lokakaffi, sem okkur finnst vel við hæfi. Það voru vaskar konur kosnar í kaffinefnd, sem víluðu ekki fyrir sér að skella á sig svuntu og þjóna fullum Súlnasal af fólki og hella uppá kaffi. Þarna vorum við ungar og hraustar og höfðum gaman af. Ég held að félagskonur allar, geti verið mér sammála um að hún Steina Finnsdóttir og maðurinn hennar, Friðrik Haraldsson bera af hvað rausnarskap í sambandi við Lokakaffið okkar varðar. Vil ég biðja þau að koma til mín og taka við gjöf frá félaginu, sem er fánastöng og auðvitað okkar fallegi félagsfáni. Gjörið þið svo vel og bið ég ykkur vel að njóta. Gefa þeim gott klapp. Með okkur í dag er stór hópur söngfólks úr átthagafélaginu okkar Á.T.V.R. þau ætla að syngja fyrir okkur undir stjórn Hafsteins Guðfinnssonar. Að lokum bið ég ykkur að njóta dagsins sem allra best og vona að þessi breyting leggist vel í ykkur og unga fólk munið eftir mæðradeginum sem er í dag. Mömmu finnst gaman að fá rós á þessum degi. |