Pistlar‎ > ‎

60 ára afmælisfagnaður Kvenfélagsins Heimaeyjar

6. apríl 2013.

Kæru félagskonur, velkomnar hingað í Grímsborgir og til hamingju með daginn.

Í dag höldum við upp á 60 ára afmæli Kvenfélagsins Heimaeyjar.

Eins og segir í sögu félagsins var upphafið það, að frú Jónína Jónsdóttir, kona Kristmanns Þorkelssonar, bauð nokkrum konum heim til sín að Seljavegi 25 í Reykjavík þar sem þær ræddu um nauðsyn þess að konur úr Vestmannaeyjum efldu tengsl sín í milli. Jónína og Kristmann voru foreldrar Huldar Kristmanns sem við munum svo margar eftir, en hún var trygg félagskona, sem vann fyrir félagið af heilum hug á meðan heilsa hennar leyfði. Bræður Huldar voru Ingi og Karl Kristmanns og dætur Karls þær Inga og Kolbrún sem eru góðar félagskonur og auðvitað fagna þær þessu merka afmæli með okkur og halda merki ömmu sinnar á lofti. Eins og sjá má eru rætur félagsins sterkar. Konur voru ekkert að tvínóna við hlutina og ákváðu að stofna félag þar sem allar konur ættaðar úr Eyjum, konur giftar Eyjamönnum og þær sem hefðu verið búsettar þar væru velkomnar.

Stofnfundur var ákveðinn þann 9. apríl 1953. Í félagsheimili V.R. við Vonarstræti.

Fyrstu stjórnina skipuðu: Kristín Ólafsdóttir formaður, Huld Kristmanns. ritari og Stella Eggertsdóttir gjaldkeri. Meðstjórnandi var kosin Stella Guðmundsdóttir og það er ánægjulegt að Stella er með okkur hér í dag til að fagna þessum áfanga.

Ritari fyrsta fundar var Selma Antoníusardóttir og 38 konur sátu fundinn.

Árgjald var ákveðið 15 krónur. Þann 4. maí sama ár var svo haldinn fyrsti almenni fundurinn. Félagið fékk nafnið „Kvenfélagið Heimaey“ og áhersla var lögð á líknarstörf. Að styðja við sjúka og efnalitla, en einnig að stuðla að því að konur úr Vestmannaeyjum hittust svo þær týndust nú ekki í borginni komnar úr litla samfélaginu heima í Eyjum.

Hugsið ykkur: félagið á allar fundarbækur frá upphafi og þar sést að áhersla hefur verið lögð á ýmiskonar fjáröflun m.a. Það voru haldnir basarar og unnu konur sjálfar alla handavinnu sem seld var. Það hefur verið töggur í konum á þessum árum. Félagið hefur aldrei átt eigið húsnæði þannig að eigur félagsins hafa rúmast í kössum, sem hafa gengið á milli stjórna í öll þessi 60 ár. Sennilega hafa frumkvöðlarnir hugsað líkt og Ási í Bæ í fallega kvæðinu „Heima“

Hún rís úr sumar sænum,

Í silkimjúkum blænum

Með fjöll í feldi grænum

Mín fagra Heimaey.

Í dag eru 175 konur skráðar í Kvenfélagið Heimaey og við erum svo lánsamar að undanfarið hafa kraftmiklar ungar Eyjakonur gengið til liðs við okkur, þannig að félagið er ekkert á þeim buxunum að lognast út af. Nei, nei, við látum það ekki um okkur spyrjast.

Félagið heldur að jafnaði 6 fundi á ári --- 3 fyrir og 3 eftir áramót.

Við hlökkum alltaf til að hittast og tölum um að í dag sé þetta eins og stórt vinkvennafélag þar sem við njótum þess að vera saman og rifja upp liðna tíð. Það má segja að öll vinna hafi verið aflögð, en þó lítum við á félagið sem líknarfélag og þeir peningar sem félagið eignast renna til góðra mála, sem stjórnin ákveður hverju sinni. Konur borga sjálfar allt sem við gerum okkur til skemmtunar. Það má eiginlega segja að hin framúrskarandi dugmikla happdrættisnefnd sem vaknar upp fyrir jólafundinn ár hvert sé eina aflið sem heldur sjóðunum okkar á lífi og hún er öflug sú nefnd eins og við vitum og þeir sem gefa í happdrættið eiga allir ættir að rekja til Eyja svo og félög starfandi í Eyjum. Ekki má gleyma Lokakaffinu, sem er eins og skemmtilegt ættarmót haldið ár hvert, laugardaginn næstan 11. maí. Vorferðin okkar sem venjulega er farin nálægt Jónsmessu er vinsæl og með henni má segja að við lokum árinu.

Í dag erum við hér í Grímsborgum hjá góðum Eyjamanni, Ólafi Laufdal og konunni hans. Eigum við ekki að segja að þessi dagur sé fyrsti í afmæli og við ákveðnar í að njóta þess að vera hér á þessum yndislega stað.


Þuríður Ólafsdóttir
Comments