Kæru félagskonur. Takk fyrir ánægjulega samveru á jólafundinum þann 5. des. Hann var fjölmennur og góður rómur gerður að þeim skemmtiatriðum sem í boði voru. Að ekki skyldi boðið upp á jólahlaðborð voru hins vegar veruleg vonbrigði og hafa margar látið í sér heyra af þeim sökum. Ekki er annað hægt en að taka tillit til slíkra athugasemda og fékk ég fund með þeim Salvöru Lilju ráðstefnustjóra á Grand Hotel og Ásmundi veitingastjóra. Tjáði ég þeim almenna óánægju stjórnar og félagskvenna með matinn. Ekki það að nokkuð væri athugavert við þá rétti, sem fram voru bornir en allar höfðu vænst þess að ganga að hinu glæsilega jólahlaðborði sem hótelið er þekkt fyrir og við höfum notið undanfarin ár. Var þeim Salvöru og Ásmundi vel kunnugt um stöðuna því margar konur höfðu haft samband beint við hótelið og kvartað, vildu fá bætur í einhverri mynd. Þau Salvör og Ásmundur hörmuðu þau atriði sem miður fóru á jólafundinum og báðust innilega afsökunar á þeirri röð mistaka sem áttu sér stað. Vonast þau til að geta bætt um betur og óska eftir tækifæri til þess. Vildu þau gera okkur tilboð fyrir fundinn sem haldinn verður í mars en ég óskaði eftir tilboði fyrir jólafundinn að ári. Var þeirri beiðni vel tekið og fékk ég sent tilboð sem hljómar vel. Ásmundur veitingastjóri býður fordrykk með léttum pinnamat og jólahlaðborð á kr. 6.900,-. Hvítvín og rauðvín verður á kr. 5.200,- kr. flaskan. Hann lét þess einnig getið að hótelið myndi gefa möndlugjöfina. Tel ég tilboðið ásættanlegt og geri ráð fyrir að því verði tekið. Árum saman hafa fundirnir verið haldnir á hótelinu. Þjónustan hefur verið lipur og allt viðmót þægilegt. Aðkoma að byggingunni er góð og næg bílastæði. Er það ósk mín að með þessum ráðstöfunum sé fundin lausn á málinu og við getum horft glaðar til komandi árs. Kær kveðja, Gunnhildur formaður |