September 2019 - Bréf frá stjórn

posted Oct 1, 2019, 2:21 AM by Vefstjóri heimasíðu   [ updated Oct 1, 2019, 2:37 AM ]

Kæra félagskona

Nú haustar eftir bjart og gott sumar hér sunnanlands. Senn hefst vetrarstarfið sem er alltaf tilhlökkunarefni. Verður dagskrá funda og samvera vonandi heillarík.

Fundir til áramóta verða haldnir fyrsta mánudag hvers mánaðar, þ.e. í október, nóvember og desember. Fundarstaður verður sem áður Grand Hótel og hefjast fundir kl. 19:00, nema jólafundurinn sem hefst kl. 18:30. Dagskrá verður auglýst á fésbókarsíðu félagsins (Kvenfélagið Heimaey) og hér á heimasíðunni. Forráðamenn hótelsins þurfa að fá uppgefinn fjölda þeirra kvenna sem mæta á fundi hverju sinni til að sporna gegn matarsóun og þurfa konur því að bóka sig með því að senda tölvupóst á netfangið Heimaey.Kvenfelag@gmail.com eða hringja í vikunni fyrir fund í Ingibjörgu ritara í síma 861-2748.

Fundir verða sem hér segir:
  • Mánudaginn 7. október kl. 19:00
  • Mánudaginn 4. nóvember kl. 19:00
  • Mánudaginn 2. desember - jólafundur - kl 18:30. Opnað inn í sal kl. 18:00

Á októberfundinn fáum við góðan gest, Sigurjón Guðmundsson. Fyrirlestur hans nefnist "Minningar um leikhús í Vestmannaeyjum." Sigurjón er fæddur og uppalinn í Eyjum, sonur hjónanna Guðmundar Ólafssonar frá Oddhóli og Guðrúnar Sigurjónsdóttur úr Mýrdal.

"Til fortíðar" getum við nefnt efni nóvemberfundar. Þá ætlum við, að loknum kvöldverði, að horfa á myndir úr starfi félagsins.

Rödd Svanhildar Jakobsdóttur mun óma um salinn á jólafundinum. Það verður tónlistarveisla með undirleikurum því Svanhildur er löngu kunn sem söngkona. Átti hún sinn þátt í að gera lög Oddgeirs Kristjánssonar ódauðleg er hún söng mörg þeirra inn á plötu með hljómsveit Ólafs Gauks árið 1968.

Það er von okkar í stjórninni að þú hafir ánægju af starfinu og komir með tillögur að nýjungum því alltaf má gera gott betra.

Hittumst hressar og gleðjumst á góðum samverustundum í vetur.

Bestu kveðjur,
Gunnhildur s. 863 1367 gunnhildur.hrolfsdottir@gmail.com
Katrín s. 861 8047 katringun@simnet.is
Ingibjörg s. 861 2748 ihs@mi.is