Vorferð 2009

Ferð kvenfélagsins Heimaeyjar 13. júní 2009.

Okkur í ferðanefndinni var falið að segja frá dagsferðinni okkar 13. júní s.l. og eins og alltaf, var hún alveg frábær. Það er svo gaman að ferðast með ykkur, þið eruð alltaf svo kátar og glaðar.

Eins og venjulega hittumst við í Mjóddinni við kirkjuna í þokkalega góðu veðri með góða skapið og lagt var af stað um kl. 10 um morguninn og keyrt eins og leið lá að Oddakirkju og vorum við komnar þangað rúmlega 12. Þar tók á móti okkur Séra Guðbjörg Árnadóttir þjónandi prestur í Odda.
Þar áttum við mjög skemmtileg stund. Séra Guðbjörg sagði okkur sögu staðarins sem á sér langa sögu, ekki bara fyrir að Sæmundur Fróði var prestur þar og komst í brauðið með klækjum, líka var Matthías Jochumsson þjónandi þar um tíma. Tíminn leið þar mjög fljótt, Séra Guðbjörg er mjög skemmtileg og fróð kona. Og eins og alltaf þá er einhver á staðnum sem tengist Vestmannaeyjum. Eiginmaður Guðbjargar heitir Hreinn og er sonur Óskars Þórs Sigurðssonar sem átti heima á Hásteinsveginum. Óskar starfaði mikið í skátunum í Vestmannaeyjum, varð síðar kennari og býr nú á Selfossi.

Jæja ekki dugði að vera þarna allan daginn þó skemmtilegt væri, því fiskisúpan beið okkar að Hótel Rangá og þangað héldum við. Í anddyrinu stendur stór og mikill Ísbjörn sem tekur á móti öllum sem koma. Matsalurinn þar er ljómandi bjartur og fallegur og ekki var súpan af verri endanum, matarmikil og góð og við gátum fengið ábót ef við vildum. Eftir matinn fengum við að skoða flottu svíturnar á efri hæðinni. Hver um sig heitir eftir landi eða heimsálfu eins og t.d. Suðurpóllinn, þar er allt svart og hvítt. Norður Amerika, þar er baðkarið úr kopar og stendur á fótum, svona eins og kúrekarnir notuðu og stór buffalóhaus á veggnum. Japönsk svíta var þarna og Áströlsk og sennilega frá fleiri löndum, var farin að rugla þessu svolítið saman. En mikið var gaman að skoða þetta. Einhver sagði mér að sólarhringurinn kostaði um 80.000. Sel það ekki dýrara en ég keypti.

Þaðan héldum við að Seljalandsfossi og sáum í leiðinni alla jarðvegsflutningana vegna framkvæmdanna við Landeyjarhöfn. Maður gerir sér engan veginn grein fyrir hvað þetta er gífurlega mikil framkvæmd. Við verðum bara að vona að höfnin komi að góðum notum þegar þar að kemur. Það var meiningin að fá blush í aðra tánna við Seljalandsfoss, því þar er nóg af nestisborðum. En þar var þá fullt af túristum og ekkert pláss fyrir okkur þó það væri bara 13. júní. Svo héldum við sem leið liggur í Fljótshlíðina, framhjá Dímon og fórum í minningarlund Þorsteins Erlingssonar. Þetta er fallegur lundur með miklum trjágróðri, en það mætti laga aðgengið að honum betur.
Rútan var svo löng að bílstjórinn treysti sér ekki til að fara afleggjarann að lundinum, því hann er svo lélegur. Ég ætla að senda sveitarstjóranum tölvupóst og kvarta.
En við áttum þar góða stund með bleika blushið og sönginn, og þó það kæmi skúr létu konurnar það ekki á sig fá heldur færðu sig bara undir næsta tré og héldu áfram að syngja. Það er sem ég segi, konunum úr Eyjum er ekki fisjað saman. Þetta gekk nú bara vel nema Inga Sigurjóns reyndi að stinga okkur af, en hún komst nú ekki upp með það blessunin, var drifin til baka af ungun hjónum úr Vestmannaeyjum sem voru þarna í skoðunarferð.

Næst var haldið að Kaffi Langbrók því þar beið okkar kaffisopinn. Inga, Auður og Jens tóku mikið vel á móti okkur. Kaffið og meðlætið var tilbúið þegar við komum og búið að raða borðum þannig að við gætum allar drukkið kaffið í einu þó þröngt væri, vegna þess að það var orðið áliðið dags. Svo sungu þau fyrir okkur við gítarundirleik, þau kalla tríóið „Hjónabandið“. Þau eru búin að gefa út disk, reglulega fjörugan og skemmtilegan, meira að segja með þjóðhátíðarlagi sem þau sendu til Eyja fyrir fáum árum í þjóðhátíðarlaga samkeppnina. Og í lokin dróg Auður upp harmoniku og spilaði lagið „Ég veit þú kemur í kvöld til mín“ og við tókum allar vel undir sönginn. Þetta var góður endir á góðum degi. Svo var haldið til Reykjavíkur og gekk ferðin þangað fljótt og vel, söngdívurnar aftar í rútunni sungu fyrir okkur hinar, fallegu Eyjalögin okkar á leiðinni til Reykjavíkur. Hvað viljið þið hafa það betra.

Og að lokum þökkum við í ferðanefndinni Sirrý, Laufey og ég, ykkur innilega fyrir samveruna þennan góða dag.

5. október 2009
Sólveig Guðjónsdóttir

Comments