Óvissuferð 2008

Út í óvissuna

Það hefur skapast sú hefð hjá Kvenfélagskonum undanfarin ár að annar fundur eftir áramót er óvissuferð, þannig að stjórnarkonur verða að nota hugmyndaflugið og til hins ítrasta því auðvitað verður ferðin í ár að toppa ferðina næstu á undan. Við erum búnar að heimsækja hvern staðinn öðrum glæsilegri, svo það þarf að vanda til.

Fyrsta ferðin var farin í Þrastarlund, fyrir austan fjall, þar komu eyjakonur, sem búsettar eru á Selfossi og nágrenni til móts við okkur og var skemmtilegt að fá þær í hópinn.

Annað árið ókum við gamla Hvalfjarðarveginn og stoppuðum við þetta líka skemmtilega veitingahús, sem heitir Skessubrunnur, borðuðum góðan mat og héldum fínan fund.

Þriðja árið fórum við aftur í Hvalfjörðinn og nú var ekið að veitingahúsinu Glym. Þar er svo ægifagurt að við sjálfhverfu Eyjapæjurnar, sem fullyrðum að hvergi sé fegurra en í okkar ástkæru Vestmannaeyjum féllum fyrir allri þessari dýrð.

Á síðasta ári var svo ekið austur að Geysi í Haukadal og þar er nú eins og allir vita frábært að vera og ekki vantar augnakonfektið þar.

Þann 09. apríl síðastliðinn héldum við upp á 55 ára afmæli kvenfélagsins og gerðu Heimaeyjarkonur sér glaðan dag af því tilefni og héldu enn einu sinni út í óvissuna. Nú var stefnan tekin áleiðis suður með sjó, rúmlega 80 félagskonur í tveim rútum og var spáð í hvar yrði stoppað og upp komu hinar ýmsu hugmyndir. Gert var stutt stopp við Duus húsin í Keflavík og þar skoðuðum við Glerverkstæði og Kertagerð, sem þar eru með starfsemi sína. Þar var tekið vel á móti okkur og sýndu glermeistarar okkur hvernig þeir blása glerið og voru þeir með hraunsalla, sem auðvitað var frá Vestmannaeyjum, veltu þeir sjóðheitu glerinu upp úr sallanum og blésu síðan og mótuðu glerið. Enn var haldið af stað og ekið sem leið lá í Bláa lónið, þar sem við héldum upp á afmælið og nutum kvöldsins yfir góðum mat og spjalli.

Í apríl 2008
Dússý

Comments