Óvissuferðin 2007

Félagskonur héldu í sína árlegu óvissuferð mánudaginn 2. apríl 2007.

Það voru tæplega 90 eyjapæjur, sem mættu upp úr kl. 17 við kirkjuna í Mjódd tilbúnar í hvað sem er. Þar biðu tvær rútur og þegar hver og ein hafði fundið sinn sessunaut, sem auðvitað tók sinn tíma var lagt af stað.

Stefnan var tekin austur á bóginn, ekið yfir Hellisheiðina og stutt stopp í Hveragerði þar sem tvær félagskonur bættust í hópinn. Þar var boðið upp á konfekt og eplasnafs og lítið sönghefti fyrir hverja konu, það er nauðsynlegt í hverri ferð, því eins og allir vita er sungið þar sem Eyjafólk kemur saman. Áfram héldum við og ekið sem leið liggur að Geysi í Haukadal. Þar var tekið á móti okkur með miklum rausnarskap, búið að útbúa fallegan sal þar sem við héldum fund nr.233 í Kvenfélaginu Heimaey.

Fundurinn var góður, við ræddum hin ýmsu félagsmál, sem á okkur brenna. Borinn var fram dýrindis matur, kaffi og litlar kransakökur í eftirrétt. Þetta var sérlega ljúffengt.

Nokkrar félagskonur sýndu okkur sumartískuna frá versluninni Rítu, sem ein félagskonan á og rekur, gerðu þær stormandi lukku, gengu á milli borða eins og þaulvanar sýningardömur. Þá geystist Ingeborg frænka í fullum skrúða í salinn og söng” Og svo sveiflast taskan og taskan sveiflast svo” Þetta var óvænt uppákoma, sem Anna Birna Ragnarsdóttir lumaði á, höfðu konur mikið gaman af og tóku undir sönginn allar sem ein.

Þannig leið kvöldið eða flaug réttara sagt, Gyða Steingríms sagði okkur gamansögur eins og henni einni er lagið, Sonja Granz sagði líka nokkur orð og Ásta Ólafs fékk nokkrar félagskonur til að leiða söng og það stóð ekki á okkur að taka undir með þeim.

Það gleður okkur Heimaeyjarkonur alveg sérlega, þegar Eyjakonur sem eru staddar upp á landi mæta á fundina til okkar, sumar eru svo duglegar að við höldum að þær séu löngu gengnar í félagið.

Á þessum fundi gengu þrjár konur í félagið tvær, sem eru búsettar í eyjum og ein á Seyðisfirði,flutti þangað í gosinu og heitir Sigrún Sigfúsdóttir. Hólmfríður Ólafsdóttir, konan hans Gauja í Gíslholti var önnur Eyjakonan, sem gekk til liðs við okkur þetta kvöld, sú þriðja er hún Dídí á Berg eða Þóra Magnúsdóttir, báðar hjúkrunarkonur í Eyjum til fjölda ára.

Hólmfríður sagði okkur frá því þegar hún kom ung og nýútskrifuð Reykjavíkurmærin í okkar þrönga eyjasamfélag, hún var fljót að aðlagast fór að vinna á spítalanum og auðvitað krækti hún í flottasta gæjann hann Gauja. Þökkuðum við henni fyrir hlýja og bráðskemmtilega frásögn, það var gaman að hoppa tæp fimmtíu ár aftur í tímann með henni.

En allt tekur enda og þannig var með þetta kvöld, við stefndum að því að vera komnar í bæinn um miðnætti, kokkarnir voru kallaðir fram og við þökkuðum þeim með dynjandi lófaklappi og sungum “Kokkinn” Og höfðu þeir gaman af.

Þá var ekið af stað heim á leið. Palda hoppaði af á Selfossi Hveragerðiðsdömunum skiluðum við til síns heima og það var glaður hópur sem renndi að kirkjunni í Mjódd laust eftir miðnætti, þakkaði okkar góðu bílstjórum hlýtt viðmót og góðan bíltúr,og fyrir að skila öllum heilum heim.

Dússý

Comments