Ferðapunktar úr vorferð Heimaeyjarkvenna 2005.

Enn var komið að því að halda í vorferð. Eins og venjulega var farið af stað frá Mjóddinni, Kirkjunni sem er orðinn okkar fasti brottfararstaður.
Leiðin lá vestur á Snæfellsnes og lofaði veðrið góðu þegar allar mættu hressar og glaðar með tilhlökkun í huga um góða helgi, hvað annað, kvenréttindadagurinn var næsti dagur!! 
Þarna tók á móti okkur hún Auður, afburða-hress og skemmtileg kona sem ók rútunni svo ekki þurfti að vera að vandræðast með karlmann í farteskinu. Auður hafði verið okkur innan handar með samninga við hótelið og hafði farið leiðirnar á Snæfellsnesiun ótal sinnum og nutum við svo sannarlega góðs af því.

Lagt var af stað á réttum tíma og engin varð eftir í þetta sinn.

Á leiðinni komum við að Ölkeldu þar sem við fengum að smakka á ölkelduvatni beint upp úr jörðinni, reyndar úr krana. Það myndaðist brátt röð þar sem við settum smápening í kassa og tókum okkur mál til að drekka úr. Þarna var engin móttökunefnd enda kraninn rétt fyrir neðan bæinn, en greinilega var þó einn íbúinn sem vildi fagna okkur, hundurinn, hann var svo ákafur í að láta okkur stoppa að hann tók sig til og merkti eina konuna á sinn hátt, við lítinn fögnuð, en hann reyndi þó!

Þá var ekið að Búðum og mátti segja að voru allar orðnar svangar og þyrstar eftir aksturinn, ölkeldan var bara einn sopi, fáar drukku meira. Við settumst fyrir utan hótelið í grænum lautum í hrauninu og fengum okkur kaffisopa og smurða brauðið góða sem ferðanefndinni þykir svo gaman að bjóða upp á. Sumar fóru inn að skoða sig um og einhver hafði himinháan verðlista um dvalarkostnað á þessum fallega stað. Húsið er reyndar kapituli út af fyrir sig það fengum við Jakob að reyna þegar við vorum þar seinna í sumar af sérstöku tilefni.

Einhverjar fóru áleiðis í fjöruna en við stoppuðum ekki mjög lengi þarna því ferðinni var heitið að Hellnum þar sem við ætluðum líka að skoða okkur um. Þar er frábært lítið veitingahús í klettunum við fjöruna og er þaðan gönguleið, létt leið meðfram sjónum, að Arnarstapa. Ekki höfðu konur hug á því að ganga frá Hellnum að Arnarstapa þannig að við keyrðum þangað og litum í kringum okkur þar einnig. Dvaldist okkur nokkuð lengi á þessum yndislegu stöðum enda var umhverfið alveg stórkostlegt og veðrið alveg dásamlegt, eins og venjulega og samkvæmt pöntun til þess sem uppi er.

Síðan var farið yfir Fróðárheiðina til Grundarfjarðar. Við gerðum gott stopp hjá skúr eða litlu húsi á leiðinn og þar fengum við okkar venjulegu upphitun í boði félagsins. Við komum í góðan tíma til Grundarfjarðar og fengum við inni á Hótel Framnesi, lítið og notalegt hótel og verðið ekki himinhátt. Þar fengum við fín herbergi, góðan kvöldverð og fengum síðan aðgang að litlum sal á neðstu hæð og þar tók Dollý, okkar besta Country-dansmær, okkur í kennslu og höfðu konur hina bestu skemmtan af þessu öllu. Nokkrar fóru á pubinn í næsta nágrenni og segir ekki sögum af því.

Sunnudagurinn 19. júní rann upp með leiðinlegu veðri svo ekki sé meira sagt. Ætluðum við reyndar að skoða okkur um hinum megin á Snæfellsnesinu, en eftir góðan morgunverð héldum við af stað í áttina til hans Hildibrands í Bjarnarhöfn. Ekkert varð úr að við skoðuðum meira þarna megin enda fór dálítill tími svo ekki sé meira sagt, í frábærar sögur, skröksögur ef ekki annað í kirkjunni á Bjarnarhöfn sem er gömul bændakirkja og er nýlega búið að gera upp. Gerði Hildibrandur allskonar tilraunir með gripi kirkjunnar og tóku konur vel undir hjá honum. M.a. voru nokkrar sem þreifuðu á kaleik kirkjunnar og lét hann þær finna hvernig hann hitnaði í höndum þeirra er þær héldu á honum. Spyrjið þær bara. Þetta er bráðskemmtilegur karl. Síðan bauð okkur að smakka á framleiðslunni hjá sér, harðfisk og hákarl, sem hann er heimsfrægur fyrir, hefur komið fram í sjónvarpsþáttum hér heima og nýlega sást hann í erlendum þætti í Ríkissjónvarpinu þar sem hann tók sig hið besta út. Þar bauð hann mönnum upp á hákarlinn og brennivín í glasi og lét þá dýfa bitunum ofan í og fengust menn til að smakka hann þannig og þótti bara gott. 
Hann bauð okkur ekki svo vel enda væri það nokkuð dýrt fyrir karlinn að taka þannig á móti öllu því fólki sem heimsækir hann.

Auðvita má ég til með að skjóta því inn hér í sögunni að í Bjarnarhöfn var hringt í mig og sagt frá því Rósa tengdadóttir mín hafði fætt dóttur, um morguninn. Þetta var auðvitað mikil gleði að loksins fengi ég aðra ömmustelpu, átti bara eina fyrir, en átta stráka, þar að auki var hún fædd þennan frábæra dag 19. júní. Stelpan er borin og barnfædd Eyjapæja.

Jæja við höldum áfram með ferðina. Eftir góða dvöl hjá Hildibrandi var ákveðið að halda heim á leið og fórum við hina nýju Vatnaleið yfir nesið Á leiðinni stoppuðum við og þar sem svolítið var eftir af brjóstbirtu og brauði var ákveðið að ljúka við það. Auður bílstjóri bauð einnig upp á kaffi sem hún lagaði í rútunni. Hún var þar með allar græjur og var það mál allra að þessa rútu og þessa bílstýru þyrftum við alltaf að hafa, enda var hún alveg frábær og átti sinn þátt í því hve ferðin var vel heppnuð.

Vorum við komnar snemma í bæinn sem konum þótti gott enda ferðin búin að takast vel og allar voru enn í fínu formi!

Comments