Árlega fer kvenfélagið í vor- eða sumarferð.
Hér á eftir er ferðasaga frá síðust ferð sem Dússý, félagi okkar, tók saman.
Ég sest að venju niður til að skrifa sögu ferðar vorsins. Eins og svo oft áður hefi ég fengið fengið frábæra punkta frá konum í ferðinni, og í þetta sinn eru þeir frá Geiru, hún með sitt frábæra skopskyn og frásagnargáfu sendi mér grunninn að þessari ferðasögu og bætti ég einhverju smávegis frá okkur í nefndinni, svona til að geta sagt að við hefðum verið með. Kærar þakkir Geira mín.
Heimaeyjarferð 19.06.2004
Það má nú segja um þessa ferð eins og fleiri að engin veit sína ferðina fyrr en á enda er.
Ekki datt mér í hug þegar ég var að rölta niður í Mjódd til að eyða degi með 40 Eyjakonum að ferðanefndin, ætti eftir að fara með okkur alla leið til Amsterdam þennan dag, en sú varð nú raunin á.
Þetta var á sjálfan Kvenréttindadaginn 19. júní og hið árlega Kvennahlaup á dagskrá um land allt. Við í nefndinni vorum sammála um að eitthvað óvenjulegt þyrfti að gera í þessari dagsferð þar sem leiðin er flestum kunn. Ákváðum við því að fá stelpurnar til að taka þátt í Kvennahlaupinu. Dússý var í góðu sambandi við eina af framkvæmdakonum hlaupsins og tók hún mjög vel í þessa uppástungu.
Og nú átti að hittast og leggja af stað í ferðina frá Mjóddinni, (sem Geiru finnst alveg frábært, vildi helst að fundirnir væru þar líka.)
Gaman að sjá að þarna voru þær allar mættar, Löllurnar og Pöllurnar, Stellurnar, Dísurnar og Steinurnar og hvað þær heita nú allar.
Þegar við ókum austur Mosfellsheiði rifjaðist upp afar söguleg ferð sem ég fór sumarið 99, þá var verið að skoða kristintökustaðina á Suðurlandi, séra Heimir var fararstjóri og svo til eingöngu miðaldasérfræðingar í ferðinni, en það er nú önnur saga.
Þegar við nálguðumst Þingvöll var tilkynnt um áform um að taka þátt í Kvennahlaupinu. Það fór undrunarkliður um bílinn og fannst sumum mikið í lagt að ætlast til að þær tækju þátt í þessu. En samkvæmt áðurnefndri framkvæmdarkonu hlaupsins var ekki ætlast til að farið væri að hlaupa langa kílómetra, aðeins að hreyfa sig úti þennan dag. Við ætluðum hvort sem var að ganga niður Almannagjá og yfir að Nikulásargjá, jafnvel með viðkomu í kirkjunni og þótti sá spölur alveg tækur í hlaupið. Stelpurnar voru því alveg til í þetta, Dússý hafði fengið boli og verðlaunapeninga og var nú byrjað á að selja bleiku bolina, sem voru í small, medium, large og X-large fyrir fáeinar, þannig að á endanum tóku allar þátt í þessu. Upphófst nú mikið brölt í rútunni meðan við tróðum okkur í bolina. Eftir myndatökur við rútuna gekk þessi skærbleiki hópur svo niður Almannagjá, niður á vellina og vöktu mikla athygli erlendra ferðamanna á leiðinni með beiðni um myndatökur o.s. frv. Mjög margar fóru að skoða kirkjuna, nokkrar skoðuðu jafnvel Skötutjörn. Ein náði næstum því að baða sig í henni en hætti við á síðustu stundu, af því að hún hafði bara einn áhorfanda!! Luku þær göngunni allar sem ein, mishratt eins og gengur og hittumst við að lokum við rútuna hjá Nikulásargjá þar sem Dússý beið með verðlaunapeningana og afhenti þá, afskaplega virðulegt, þarna bættist peningur við bleika bolinn. Aftur fullt af myndatökum og voru þær kátar með það, sönnunargagn dagsins.
Alltaf er jafn gaman að koma á Þingvöll en þetta er áreiðanlega í fyrsta skipti sem Kvennahlaupið fer fram þar.
Það var glatt á hjalla í rútunni yfir Gjábakkaveginn, gengið var að Laugardalshellum og þeir skoðaðir, það er ótrúlegt hvað stutt er síðan fjölskylda bjó í þessum hellum, og þau eignuðust nokkur börn meðan þau bjuggu þarna, Fríða fræddi okkur um þetta allt.
Aðeins var ekið um hlað á Laugarvatni og litast um frá rútunni.
Á leiðinni í sumarbústað Fríðu og Jakobs var ágæt fjallasýn, sást vel til Heklu og fengum við ýmsan fróðleik um fjöll og firnindi frá Fríðu, ásamt gríni og glensi, meðal annars nokkrar góðar sögur af Ólafi Ketilsyni, og margan brandarann heyrði maður manna á meðal í rútunni, bara að maður myndi nú þetta allt!!
Er við komum að bústað Fríðu, stóð húsbóndinn í varpa og bauð konur velkomnar, hér biðu okkar hlaðin borð af allskonar góðgæti, flatkökur, pönnukökur, samlokur eins og hver vildi, ásamt allskonar drykkjarföngum og fríðum hópi af ungu fólki sem var þarna að þjónusta okkur. Dvöldum við þarna í góðu yfirlæti við át, söng og glens.
Lalla og Ásta skiptust á með gítarinn og voru rifjaðir upp ýmsir bragir sem Lalla og fleiri eru fróðar um. Loks var nú þessi góði staður kvaddur og haldið áleiðis til Stokkseyrar. Héldu sumar konur að við værum að fara í Draugasafnið, en ekki inn að rúmgafli hjá fólki sem ég þekkti ekki neitt, og það í Amsterdam!
Vinkona Dússý og Fríðu, Edda Ólafsdóttir (Edda er bróðurdóttir Þorsteins Einarssonar íþróttafulltrúa fyrrverandi) og maður hennar Helgi, eiga þarna hús og bauð Edda öllum hópnum heim. Húsið heitir Amsterdam og stendur á frábærum stað, rétt fyrir ofan fjöruborðið og er eins og úr gömlu ævintýri. Dússý segir að það hafi verið flutt frá Siglufirði og byggt upp á Stokkseyri, það voru einhverjir síldarspekulantar, sem áttu það og á sínum tíma var það eitt af fínu húsunum í bænum,en drabbaðist svo niður eftir að síldi hvarf eins og gengur en fékk þó þetta virðulega nafn. (Svo var víst annað hús sem hét Rotterdam og þar réðu rotturnar ríkjum og er nafnið dregið af því).
En svo mikið er víst að þetta hús er sko ekki í neinni niðurníðslu í dag, þarna fengum við góðar veitingar og viðmót, okkur bauðst að skoða þetta allt, bæði úti og inni, upp á háaloft og niður í kjallara, og var margt að sjá, alveg á við besta safn.
Næst var ekið rólega í gegnum Eyrarbakka, þar sem margar konurnar þekktu vel til.
Þegar hér var komið lýsti Fríða því yfir að hópurinn léti sérstaklega vel að stjórn, matur hafði verið pantaður kl. 17:30 og vorum við mættar á mínútunni hálf sex í Hafið bláa!!
Þar fengum við góðan mat og þjónustu. Eftir matinn kvöddu nokkrar konurnar, héldu í sína sumarbústaði en við hinar kvöddumst í Mjóddinni eftir góðan dag í yndislegu veðri “eins og venjulega” og allar meira en lítið hreyknar af sér og afreki dagsins.
Kærar þakkir fyrir frábæra samveru.
Dússý