Ferðalög‎ > ‎

2016 - Vorferð um Kjós og Suðurland

Samantekt á vorferð Heimaeyjar laugardaginn 4. júní 2016

Kvenfélagið Heimaey fór í sína árlegu innanlandsferð laugardaginn 4. júní sl.

Ferðin hófst frá kirkjunni í Mjóddinni klukkan  rúmlega níu að morgni. Veðrið lofaði góðu því bjart var og sólríkt. Var ferðinni heitið inn að Meðalfellsvatni sem var okkar fyrsti áningastaður. Hjá Kaffi Kjós í hlöðunni á Hjalla var tekið á móti okkur af hjónunum Hermanni og Birnu sem eiga og reka staðinn.

Þar fengum við veitingar, kaffi og vöfflur með tilheyrandi meðlæti og hjónin sögðu okkur frá ferðaþjónustunni sem þau reka á staðnum sem var fróðlegt og skemmtilegt að heyra. Á staðinn kom leynigestur, kona frá Vestmannaeyjum Hildur Axelsdóttir, sem hefur verið með búskap við vatnið í áratugi og margar í hópnum þekkja.

Frá Meðalfellsvatni lá leiðin um Þingvelli og yfir Lyngdalsheiði að Laugarvatni. Þar áttum við stefnumót við fulltrúa frá Fontana heilsulindinni við vatnið.  Gufan við Laugarvatn hefur verið nýtt sem heilsulind nánast allt frá landnámi, en í dag hefur bæst við brauðbakstur sem fer fram í fjöruborði vatnsins. Þar fengum við að sjá hvernig baksturinn fer fram, pottur með deigi grafinn niður í holu í sandinn þar sem kraumar sjóðheitt vatn og látið malla þar í 24 tíma. Við fengum að gæða okkur á bakstrinum sem bragðaðist ljómandi vel.

Frá Laugarvatni var ferðinni heitið að Friðheimum í Reykholti. Þar fræddumst við um tómatarækt sem fram fer á staðnum með sérstökum aðferðum og eins snæddum við hádegisverðinn okkar þar sem var tómatsúpa með heimabökuðu brauði.
Að lokinni heimsókn í Friðheima var næsti áfangastaður Skálholtskirkja með viðkomu í Þorláksbúð. Við komuna þangað stóðu yfir tónleikar í kirkjunni sem var hægt að njóta um stund. Síðan var farið í Þorláksbúð og þar tók á móti okkur presturinn Halldór Reynisson og fræddi okkur um staðinn. Þá var komið að því að hella örlítið á mannskapinn og liðka til söngraddirnar sem tókst nokkuð vel því Vestmannaeyjalögin ómuðu úr sal Þorláksbúðar um nærliggjandi sveitir svo sögur fara af.

Eftir góða smurningu á söngröddunum héldum við af stað í áttina að Flúðum sem var okkar næsti áfangastaður. Fyrst komum við við hjá listakonunni Önnu Magnúsdóttur sem tók á móti okkur á heimili sínu með einstakri reisn. Þar fengum við að sjá listaverkin hennar og önnur viðfangsefni sem hún fæst við. Húsið hennar sem við fengum að skoða má kalla listaverk út af fyrir sig og ekki má gleyma glæsilegum veitingum sem biðu okkar við komuna.

Eftir heimsóknina til Önnu héldum við til Hótels Flúða þar beið okkar kvöldverður, dýrindis fiskréttur og eftirréttur þannig að við vorum orðnar velmettar þegar kom að brottför frá Flúðum.
Ferðin frá Flúðum gekk vel og söngolían dugði að upphafsstað ferðarinnar sem var kirkjan í Mjóddinni og duglega var tekið undir í söng, spjalli og hlátri. Veðrið var eins og pantað, sól og bjart allan daginn sem gerði ferðina enn skemmtilegri.
Við heimkomuna var klukkan orðin um 19:30, en þrátt fyrir langan dag var ekki þreytu að sjá á nokkurri konu svo hugsanlega hefðum við getað haldið ferðalaginu áfram.

Ánægjulegt var hve margar konur sáu sér fært að mæta í ferðina, en fjöldinn var 35 auk bílstjóra. Formanninum okkar, Gunnhildi Hrólfsdóttur, þökkum við fyrir leiðsögnina í ferðinni sem kryddaði hana með skemmtilegum frásögnum og sögum á milli viðkomustaða.

Ferðanefndin, Birna, Ásta og Ingibjörg