Sumarferð Kvenfélagsins Heimaeyjar 9. júní 2007 Ég veit ekki hvernig stendur á því en það er að verða grunsamlega stutt á milli sumarferðanna hjá Heimaey. Það er víst tíminn sem líður svona hratt því við förum eins og áður árlega í sumarferð. Haldið var af stað eins og venjulega frá Mjóddinni . Nú varð laugardagurinn 9.júní 2007 fyrir valinu og lofaði veðrið góðu, sólarlaust en hlýtt og þurrt.. Skemmtilegt þótti okkur í ferðanefndinni hve vel var mætt, 53 konur mættu og er það með besta móti. Ekið var austur og farið um Þrengslin. Fyrsta stopp var á Stokkseyri þar sem við gátum aðeins litast um. Þar er fjaran alveg stórkostleg en ekki gafst svo sem neinn tími til að fara þar niður. Fyrir löngu, sennilega bara 1982 eða 83, fór Geira með Ferðafélagi Íslands í sölvaferð í fjöruna við Stokkseyri. Þetta var mjög skemmtileg ferð en heldur fannst henni skrýtið á að heyra fararstjórann, sem var á þeim tíma þekktur húsmæðrakennari, lýsa hvernig ætti að meðhöndla sölin. Þegar búið væri að skola þau, sagði hún, átti að hengja þau uppá snúru til þerris!!! Næsta stopp var á Selfossi og bættust fjórar konur í hópinn þar. Ókum við nú beint að Skógum og gáfum okkur góðan tíma í hádegissnarl og safnaskoðun þar sem Þórður fylgdi okkur um safnið og söng með okkur í kirkjunni að venju. Hann er alveg ótrúlegur þessi frábæri maður sem engu gleymir, er orðin eins og gangandi alfræðibók sem maður getur flett upp í, hann getur svarað öllu. Síðan fórum við áfram austur á bóginn með viðkomu í fjörunni undir Reynisfjalli þar sem konur stilltu sér upp eins og kvennakór og sungu hvert lagið af öðru í Hánefshelli sem er einn af þessum stórkostlegu hellum, sem þarna eru. Þetta vakti mikla hrifningu annarra ferðalanga sem voru staddir þarna líka. Enginn friður fyrir ljósmyndurum, innlendum og erlendum með videoupptökutæki og hvaðeina. Við héldum síðan aftur að stað og var nú keyrt að Vík í Mýrdal og meiningin að skoða Skaftfelling og Bryde-búð. Dapurlegt er að sjá Skaftfelling. Það hlýtur að þurfa mikið til að hægt verði að gera þessu verki skil. Það vantar sjálfsagt peninga þar sem og víðar. En fróðlegt var að skoða Bryde-búð í Vík. Langi einhvern að fræðast meira um Bryde-búð í Eyjum, þá er sagt frá henni í ævisögu Einar ríka, fyrsta bindi -Fagurt er í Eyjum- og sjálfsagt víðar. Eitthvað er talað um reimleika í húsinu. Bryde er kominn, býst ég við. Látum við hér lokið sögum af Bryde kaupmanni. Aðeins var staldrað við í Vík og fengu margar konur sér hressingu á veitingastað sem rekinn er í húsi Bryde-búðar en nú var kominn tími til að halda heim á leið. Við ætlum nú að borða kvöldmat á Hótel Heklu. Já, margt sá maður og heyrði skemmtilegt í þessari ferð eins og venjulega. Hún Auður, bílstjórinn okkar, er alveg einstök, skipulagði ferðina með okkur og skilaði okkur öllum glöðum og heilum heim eftir frábæran dag. Dússý mín! |