Sumarferð Kvenfélagsins Heimaeyjar 9. júní 2007

Ég veit ekki hvernig stendur á því en það er að verða grunsamlega stutt á milli sumarferðanna hjá Heimaey. Það er víst tíminn sem líður svona hratt því við förum eins og áður árlega í sumarferð.

Haldið var af stað eins og venjulega frá Mjóddinni . Nú varð laugardagurinn 9.júní 2007 fyrir valinu og lofaði veðrið góðu, sólarlaust en hlýtt og þurrt.. Skemmtilegt þótti okkur í ferðanefndinni hve vel var mætt, 53 konur mættu og er það með besta móti.

Ekið var austur og farið um Þrengslin. Fyrsta stopp var á Stokkseyri þar sem við gátum aðeins litast um. Þar er fjaran alveg stórkostleg en ekki gafst svo sem neinn tími til að fara þar niður. Fyrir löngu, sennilega bara 1982 eða 83, fór Geira með Ferðafélagi Íslands í sölvaferð í fjöruna við Stokkseyri. Þetta var mjög skemmtileg ferð en heldur fannst henni skrýtið á að heyra fararstjórann, sem var á þeim tíma þekktur húsmæðrakennari, lýsa hvernig ætti að meðhöndla sölin. Þegar búið væri að skola þau, sagði hún, átti að hengja þau uppá snúru til þerris!!! 
Það hefði þurft nokkuð margar snúrurnar fyrir sölvatekjuna heima hjá mér í gamla daga, sjáið þið okkur í anda setja sölin á snúrur á morgnanna og taka niður á kvöldin?? Dússý segir að sölin hafi verið hengd á snúru hjá þeim í Suðurgarði, en auðvitað í léreftspokum eftir að búið var að þurrka þau . Blessaður kennarinn hlýtur að hafa misskilið þetta eitthvað þegar hún var að kynna sér meðhöndlun þessa dásamlega viðbits, sem flestir eyjamenn á fastalandinu hugsa til með foríðarþrá í sambandi við tínslu og meðhöndlun.

Næsta stopp var á Selfossi og bættust fjórar konur í hópinn þar.

Ókum við nú beint að Skógum og gáfum okkur góðan tíma í hádegissnarl og safnaskoðun þar sem Þórður fylgdi okkur um safnið og söng með okkur í kirkjunni að venju. Hann er alveg ótrúlegur þessi frábæri maður sem engu gleymir, er orðin eins og gangandi alfræðibók sem maður getur flett upp í, hann getur svarað öllu. Síðan fórum við áfram austur á bóginn með viðkomu í fjörunni undir Reynisfjalli þar sem konur stilltu sér upp eins og kvennakór og sungu hvert lagið af öðru í Hánefshelli sem er einn af þessum stórkostlegu hellum, sem þarna eru. Þetta vakti mikla hrifningu annarra ferðalanga sem voru staddir þarna líka. Enginn friður fyrir ljósmyndurum, innlendum og erlendum með videoupptökutæki og hvaðeina. 
Stelpur, vitið þið hvort búið er að sýna myndir eða upptökur á erlendum (líklega þýskum) stöðvum, eða hvort hópurinn hefur fengið tilboð sem lítandi er á? Þá settumst við niður í brekkunni og hvíldum lúin bein, svolítið er torfært að ganga í fjörunni, en engin okkar lét það á sig fá og því var gott að setjast og fá sér svolítið í aðra tána með einhverju meðlæti. 
Þarna var verið að smíða litla aðstöðu við fjöruna, og er það heimilisfólkið að Görðum í Reynishverfi sem selur veitingar og einnig er hægt að leigja gistinu þarna yfir sumartímann.

Við héldum síðan aftur að stað og var nú keyrt að Vík í Mýrdal og meiningin að skoða Skaftfelling og Bryde-búð. Dapurlegt er að sjá Skaftfelling. Það hlýtur að þurfa mikið til að hægt verði að gera þessu verki skil. Það vantar sjálfsagt peninga þar sem og víðar. En fróðlegt var að skoða Bryde-búð í Vík. Langi einhvern að fræðast meira um Bryde-búð í Eyjum, þá er sagt frá henni í ævisögu Einar ríka, fyrsta bindi -Fagurt er í Eyjum- og sjálfsagt víðar. Eitthvað er talað um reimleika í húsinu. 
Sagt er að ekki hafi allir Eyjamenn verið hrifnir af J.P.T. Bryde. Sigurður faðir Einars ríka lét hundinn sinn heita Bryde! 
Samt er hægt að þakka Bryde kaupmanni það að hann gaf Landakirkju fyrsta orgelið sem hún fékk, það var árið 1879. Í Sögum og sögnum úr Eyjum er sagt að þetta hljóðfæri muni enn vera til og vera varðveitt á byggðasafninu í Eyjum. Sigfús Árnason frá Vilborgarstöðum var þá 19 ára og var hann sendur til Reykjavíkur til þess að læra að spila á orgelið. Varð hann síðan organisti í kirkjunni um langt skeið. 
Einar ríki segir að karl hafi verið í Eyjum á þessum tíma sem aldrei var kallaður annað en Siggi Bonn Hann gerði sér það til skemmtunar að yrkja vísur. Ekki þóttu þær mikill skáldskapur, en þessa vísu kvað Siggi Bonn um Bryde:

Bryde er kominn, býst ég við. 
Bragnar mega sjá hann. 
Með báða syni sína og sig 
Sitt hús prýða lætur hér!!!

Látum við hér lokið sögum af Bryde kaupmanni.

Aðeins var staldrað við í Vík og fengu margar konur sér hressingu á veitingastað sem rekinn er í húsi Bryde-búðar en nú var kominn tími til að halda heim á leið. Við ætlum nú að borða kvöldmat á Hótel Heklu. 
Maturinn og viðmót á Hótel Heklu var mjög gott og fór vel um okkur þar í fallegu húsi þarna á Skeiðunum. 
En þarna gerðist kraftaverk, ein konan var komin með risavaxna bleika vængi og sveif um alla sali, söng og talaði tungum, ekki veit ég hvað varð um hana, hvort hún flaug á braut eða hvað.

Já, margt sá maður og heyrði skemmtilegt í þessari ferð eins og venjulega.

Hún Auður, bílstjórinn okkar, er alveg einstök, skipulagði ferðina með okkur og skilaði okkur öllum glöðum og heilum heim eftir frábæran dag.

Dússý mín! 
Ég er ekki alveg klár á þessu síðasta atviki með konuna með vængina, var þetta uppákoma hjá Önnur Birnu? 
Þetta getur svo sem verið með, en þetta hefur sennilega farið framhjá mér. Maður er víst ekki allsstaðar.

Comments