Laugardaginn 10. júní 2006 er komið að hinni árlegu ferð Heimaeyjar.

Hún hefst á þessum frábæra stað fyrir mig, (skrifar Geira) við kirkjuna í Mjódd, hvað er betra en byrja daginn með 15 mínútna röskri göngu? 
Í mínu tilfelli endar þessi dagurinn líka þannig.
Ég segi enn og aftur að ég bíð bara eftir að fundirnir færist þangað líka.

Þarna var mættur hinn fríðasti hópur kvenna hvorki meira né minna en u.þ.b. 65 konur og þurfti tvær rútur til að flytja mannskapinn. Geira talar um Löllurnar og Pöllurnar, Möggurnar og Böggurnar, og má bæta við fleiri góðum nöfnum svo sem eins og fjórum “Gunnum”, fjórum Önnum, þrem Helgum og svona mætti lengi telja, og svo allar hinar.

Á nákvæmlega réttum tíma er lagt af stað og ferðinni heitið áleiðis í Borgarfjörð. Eina góða, Dóru Einars, tókum við upp í Mosfellssveit. Fórum við hin þægilegu Hvalfjarðargöng áleiðis á Akranes. Þar í bæ býr hún Laufey Kristjánsdóttir, ættuð frá Fögrubrekku, og bættist hún í hópinn. Byggðasafnið að Görðum var skoðað, það er ákaflega stórt og merkilegt safn, m. a. var nýbúið að ganga frá fingurbjargarsafni, 3500 fingurbjargir, engin eins, og allar merktar hvaðan þær eru fengnar og ár og dagur hvenær þær komu í eigu þeirrar konu sem átti þetta merkilega safn. Hún hét Jóhanna L. Þorgeirsdóttir, sem ættuð var af þessum slóðum. Þarna var lítið þríhjól sem hafði verið smíðað úr tré um 1925 og margt fl. var að sjá í þessu stóra og merkilega safni. Einnig var fótboltanum gefið gott rúm og mátti sjá stjörnur fyrri ára. Það var á meðan Akranes var það lið sem var og hét og maður hélt með, eingöngu vegna þess að þeir voru utan af landi. Þetta var löngu fyrir tíma IBV í boltanum.

Geira sendir þessa vísu frá sér um fótboltann á Akranesi:

Skagamenn – 
Þótt farin sé Akranes örkin 
þá iðka menn fótboltaspörkin, 
keyra um Göngin 
svo kyrja þeir sönginn: 
-Skagamenn skoruðu mörkin.

Á hlaðinu fyrir utan safnið voru nokkrir víkingar, a.m.k. fólk eins klætt og þeir og voru þeir að ýmsum störfum. Þar var m.a. verið að steikja lamb í heilu lagi yfir opnum eldi. Það átti að borða seinna um daginn enda gert í tilefni þess að safnadagurinn var haldinn hátíðlegur þennan dag og nutum við góðs af því og því okkur var öllum boðið frítt á safnið.

Næst var ekið að Hvanneyri þar sem Jakobína og Trausti Eyjólfsson búa. Jagga var búin að lofa okkur í ferðanefndinni að hún myndi segja frá hinu og þessu bæði úr Borgarfirðinum um hitt og þetta sem henni kæmi í hug. Hún er alveg hafsjór af fróðleik bæði um náttúru og mannlíf í héraðinu, allt frá erfiðum tengdamæðrum til einhleypra karla. Hún var alveg frábær. 
Hún sagði okkur að haft væri eftir Gvendi jaka eitt sinn er hann kom á planið hjá Hyrnunni í Borgarnesi. Hér eru þrjár bensínstöðvar og svo stutt er á milli þeirra, að stæði maður við eina þeirra gæti maður spýtt á aðra og migið á þá þriðju.

Margar sögur heyrði maður frá konunum í ferðinni. Ein sagði sögu af því er hún stangaði leigubíl í vetur! Hvorugu varð meint af!

Frá Hvanneyri var ekið inn Hvítársíðu og er fjallasýn þar með Strút, Eiríksjökul í allri sinni tign ásamt Langjökli, Geitlandsjökli, Oki og svo mætti lengi telja. Þarna sáum við heim að Stóraási þar sem Andrés Kolbeinsson ólst upp en hann var óbóleikari við Sinfóniuna og áhugaljósmyndari til margra ára. Geira segist einmitt hafa skoðað yfirlitssýningu á ljósmyndum hans í Grófarhúsinu deginum áður, svona tengjast viðburðirnir!

Við komum að Hraunfossum þeim yndislega fagra stað. Ráðgert var að finna einhvern stað til að ganga “Skref fyrir skref” eins og kjörorð Kvennahlaupsins var í þetta sinn. Við vorum auðvitað búnar að verða okkur út um allt sem því tilheyrir, Dússý er innundir hjá þessu góðu konum í Garðabænum sem leyfðu okkur nú að taka þátt í hlaupinu í annað sinn. Þarna var alveg tilvalið að fá sér nesti, aðeins upp í hlíðinni, bak við upplýsingaaðstöðuna. Það eru nokkur “Skref fyrir skref” að komast þangað og það var Kvennahlaupið hjá Heimaeyjarkonum þetta árið. Margar gengu um alla útsýnispallana svo að þær fóru kannski svolítið lengra, en tilganginum var náð. Þarna fengum við okkur kaffi og brauð og svolítið í tærnar í restina, sungum með Addý, sem var með gítarinn og spjölluðum saman á þessum yndislega stað í blíðaveðri, sem ekki sveik okkur frekar en venjulega. Þær sem tóku þátt í “hlaupinu” fengu sína eiturgrænu boli og pening að auki. 
Bílstjórinn var eitthvað að reyna að spæla okkur á heimleiðinni, sagði að við hefðum gengið 253 metra, ja hérna, það er nú töluvert, ef það er lagt saman, sextíu og fimm sinnum!!. 
Dvöldum við góða stund þarna og gengum svolítið um, og þarna lenti ég í því að taka jólamyndina fyrir danskan frænda Gunnhildar Helgadóttur.

Héldum við síðan að Húsafelli, höfðum þar stuttan sem engan stans en fórum svo til baka Hálsasveitina, niður að Reykholti. Ekki gafst tími að skoða sig um þar né heldur Deildartunguhver í þetta sinn, en við fórum Draghálsinn að Hótel Glym. Nutum við fróðleiks Jakobínu á leiðinni. Hún var búin að segja okkur að Trausti myndi bíða eftir sér á hótelinu, við mættum búast við að fá marga kossa þar sem honum þætti ekki leiðinlegt að faðma og kyssa allar þessar konur, og væri hann búinn að hlakka mikið til þess að hitta okkur. Endurtók hún að Trausti væri svo hrifinn af kvenfólki og gaf í skyn að við þyrftum ekki að spara kossana. Jagga er ótrúlega skemmtileg og góð kona, enda voru konur ófeimnar að faðma hann og kyssa, höfðu leyfi frá frúnni! 
Er sest var að borðum stóð Gyða upp og bað konur að hrópa ferfallt húrra fyrir Steinu Finnsdóttur, sem átti merkisafmæli daginn eftir, 10. júní áttatíu ára. Að hugsa sér. Hún var reyndar ekki með í ferðinni, en hefur vonandi fundið okkar góðu óskir til hennar. 
Eftir góðan mat og drykk voru margar myndir teknar og tók dálítinn tíma að koma hópnum í rúturnar, Fríða var eitthvað að tala um dropateljara þarna, veit ekki hvort hún ætlar að hafa hann með í næstu ferð, en mér skildist það ætti að nota hann á klósettinu. Geira segir þetta um mig, ég man ekkert eftir þessu!!! Þess má geta að eitthvað af myndum úr ferðinni eru komnar á heimasíðuna.

Það var frábærlega gaman í þessari ferð, hún var vel heppnuð og ekki síður fyrir það hvað margar konur sáu sér fært að koma með okkur. Þetta er fjölmennasta ferð sem ég hefi tekið þátt í og vildi ég óska að framhald yrði á þessu. Kannski er þetta besta leiðin, að hafa bara eins dags ferðir, skiljanlega vilja sumar konur ekki gista í svona ferðum. Ferðanefndin hefur áhuga á að heyra vilja ykkar í þessum efnum. Jafnframt þakkar hún ykkur góða þátttöku og góðar óskir okkur til handa.

Ein snjöll gáta kom á heimleiðinni: hvaða mannsnafn er það sem tengist logni milli lands og Eyja? (einhver konan var snögg að ráða það; Eyvindur)

Að lokum kemur smá bragur úr Eyjum:

Siggi Munda, 
fór að veiða lunda, 
Veiddi Súlu, 
Íslenski fáninn.

Hver er höfundurinn? ( Svarið er Jói Danski)

Ferðanefnd + Geira í Nýjabæ.

Comments