Kvenfélagið Heimaey - þriðji í afmæli - Goslokahátíð 4-6 júlí ´03

Þá er þriðji í afmæli liðinn - Goslokahátíðin í Vestmannaeyjum - og mikið var þetta allt skemmtilegt. Það var vel tekið á móti okkur á gistiheimilinu Hamri og Gísli Valur bætti við rúmum í staðinn fyrir dýnur á gólfið þar sem þurfti að bæta við svefnplássi svo það færi nú vel um okkur allar. Það var þröngt setinn bekkurinn,42 konur mættar kátar og hressar að venju, en“ þröngt mega sáttir sitja” eins og þar stendur og á endanum fengu allar rúm til að sofa í. Ég veit nú ekki hvað var mikið sofið þessa helgi því mikið var að gera . Næst fórum við allar að Búhamri, meðferðarheimili fyrir þroskahefta. Þar tók á móti okkur forstöðukonan Jóhanna Hauksdóttir með kaffi og pönnukökum. Gyða formaður afhenti heimilinu gjöf frá Kvenféaginu Heimaey, hljómflutningstæki með karókee. Mér sýndist allir á heimilinu vera mjög ánægðir með gjöfina.

Veðrið þennan föstudag var eins og best verður á kosið, sólskin og logn. Hvergi er fallegra í góðu veðri en í Vestmannaeyjum.

Dagskráin hjá Goslokanefndinni var svo fjölbreytt og skemmtileg, margt að gerast á sama tíma að það var ekki mögulegt að komast yfir það allt saman. Það voru t.d. myndlistasýningar, glerlist, ljósmyndasýning úr gosinu, gönguferðir um hraunið og á Heimaklett, söngur á Stakkó og undir Löngu, Íslendingur, báturinn hans Gunnars Marels, kom siglandi til Eyja og ekki má gleyma Skvísusundi með söng og dans í hverri kró og margt, margt fleira. Þetta var allt alveg frábært. Svo fannst mér líka svo skemmtilegt hvað húsin og göturnar voru skemmtilega skreyttar með allavega litum fánum, blöðrum og borðum. Það setti svo skemmtilegan og glaðlegan svip á bæinn.

Við félagskonur hittumst kl. 10 um kvöldið í salnum á fyrstu hæð, svona til að spjalla og fá pínulítið af Blush í litlu tána áður en stefnan var tekin á Skvísusund, sem var þarna rétt hinum megin við götuna. Og ekki var farið snemma að sofa þessa nóttina.

Laugardagurinn byrjaði með sameiginlegum morgunmat og létu félagskonur ekki deigan síga, mættu snemma í matinn því mikið var framundan þennan dag. Kl. 13:00 kom Simmi á rútunni til að fara með okkur í skoðunarferð um Eyjuna. Hann hafði frá mörgu skemmtilegu að segja, meðal annars frá því þegar Finnlandsforseti kom í heimsókn til Vestmannaeyja og það átti að gæða honum á rúgbrauði sem væri bakað í hrauninu. Það tókst ekki betur til en það, að sá sem átti að passa rúgbrauðið, gleymdi því þangað til að það var orðið ein brunarúst. Hann dreif sig í bakaríið, bað stelpurnar að setja rúgbrauð í mjólkurhyrnu, flýtti sér svo með rúgbrauðið út á hraun og gróf það niður. Það rétt náðist að hafa brauðið grafið í smá stund þegar forsetinn og fylgdarlið birtist, brauðið grafið upp og úr hyrnunni kom niðursneitt rúgbrauð. Það var víst erfitt að redda sér út úr þessu klúðri.

Skoðunarferðin endaði fyrir ofan Hraun, í veislusalnum hjá Kristjáni Óskarssyni og Emmu frá Þingholti. Þau buðu kvenfélagskonum í þessa líka flottu veislu til minningar um Huldu, systir Emmu, sem alla tíð var mikil og virk félagskona. Það var mikið fallega lagt á borð og meðlætið eftir því. Kristján og Emma eru sérstaklega rausnarleg hjón og er þetta ekki í fyrsta sinn sem þau bjóða okkur til veislu. Rútan kom og sótti okkur í veislusalinn og flutti okkur niður á Hamar, og var það eins gott því nú var komið rok og rigning. En veður er bara veður og ekkert við því að gera, og nú var bara að drífa sig í sparigallann og halda í Höllina á tónlistardagskrá, byggða á Eyjalögum. Þar voru fleiri hundruð manns saman komin og mikið borðað og mikið sungið. Þetta var alveg sérstaklega skemmtilegt kvöld, yndislegt að heyra þessi fallegu lög flutt af góðu tónlistarfólki undir stjórn Hafsteins Þórólfssonar, sem er dóttursonur Oddgeirs Kristjánssonar, sonur Söru (dóttur Bússu) og Þórólfs Guðnasonar (Guðna kaupfélagsstjóra) barnalæknis. Þegar dagskránni lauk í Höllinni beið Skvísusund og þær voru ekki fáar félagskonurnar sem drifu sig þangað og skemmtu sér við söng og gleði fram eftir nóttu.

Lokadagur ferðarinnar – sunnudagurinn – byrjaði sem fyrr á morgunverði og spjalli. Sumar komu niður á náttfötunum svo þetta var mjög heimilislegt. Eftir morgunverð fóru félagskonur í ýmsar áttir, sumar í heimsóknir og aðrar í göngumessuna sem var haldin við krossinn í Eldfelli. Veisluhöldunum var samt ekki lokið því Kvenfélagið Líkn bauð okkur í kaffi og vöfflur. Þær eiga sitt eigið húsnæði sem þær nota fyrir sína starfsemi, vinnu fyrir basar, fundi og fleira. Það var mjög gaman að koma til þeirra og sjá hvernig þær búa.

Nú fór að líða að ferðalokum því flestar félagskonur fóru heim með Herjólfi kl. 16:00 Ferðanefndin hjálpaði til með töskurnar niður á bryggju og óskaði þeim góðrar ferðar.

Mín hugsun var eins og venjulega “þetta var besta ferðin”. Við í ferðanefndinni þökkum kærlega fyrir samveruna þessa þrjá daga.

Hér lýkur ferðasögu Dollýar og sem sjá má er margbreytilegt hvað þær Geira hafa skoðað og upplifað. Við hinar, sem tóku þátt í ferðinni, finnum samhljóm í því sem þær segja og samykkjum þetta áreiðanlega allar og gætum við hver og ein bætt einhverju við frá eigin brjósti ef í það væri farið. Kærar þakkir til sögukvennanna.

Fyrir hönd 2)3 hluta ferðanefndar: 
Fríða og Dússý.

Comments