Sumarferð Kvenfélagsins Heimaeyjar 23. júní 2001 Á Njáluslóðir.

Í þessa dagsferð komu 35 konur . Haldið var af stað frá Hótel Esju kl. 09:30 og lá leiðin austur á Hvolsvöll, á Njáluslóðir. Allar voru spenntar að komast af stað. Við vorum heppnar með veður eins og oftast nær.

Fyrst var haldið í Grímsnesið þar sem Palda og hennar maður eiga yndislegt sumarhús. Það er umlukið trjám og öðrum gróðri sem þau hafa gróðursett í gegnum árin og nutum við góðs af því. Við höfðum tekið okkur til og keypt álfastyttu sem þakklætisvottt fyrir heimboðið og erum við vissar um að hann (álfurinn) sómir sér vel í nágrenni við aðra álfa og góða vætti þarna á svæðinu. Þarna áttum við góða stund við söng og spjall eins og okkur einum er lagið. 
Veitingar voru bornar á borð, kaffi, samlokur, flatkökur og pönnukökur en Hildur og Þorgerður stóðu í ströngu við undirbúning fyrir ferðina. Hafi þær hina bestu þökk fyrir. 
Í framhaldi bauð félagið upp á léttar veigar, sem hleyptu roða í kinnar kvennanna og rann þetta allt mjög svo ljúflega niður. Eftir góða dvöl hjá Pöldu var svo haldið beint á Hvolsvöll. 
Þar tók Arthur Björgvin Bollason forstöðumaður safnsins á móti okkur og gekk hann með okkur um sýninguna “Á Njáluslóð.” Rifjaði hann upp sitt af hverju um atburði Brennu-Njálssögu. Arthur Björgvin er frábær sögumaður, lifandi og skemmtilegur og upplýsti okkur um hvernig þessi tími einkenndist af hetjudáðum, vináttu og fjandskap og jafnframt hefndum og drápum.

Eftir þennan fyrirlestur fórum við síðan að Keldum á Rangárvöllum. Leiðsögumaður okkar þangað var Lárus Guðjónsson, sagnfræðingur og mikill hestamaður. Hann þekkir þessar slóðir afar vel enda fæddur og uppalinn í sveitinni og hefur sjálfsagt fengið söguna með móðurmjólkinni. 
Að Keldum var aftur farið í nestisskjóður og tókum við okkur góðan tíma enda var veðrið gott og margt að skoða á þessum fallega stað.

Komum við í Maríulind sem Guðmundur góði hafði að sögn vígt og er sagt að hún hafi lækningarmátt fyrir augun. Konur urðu auðvitað að baða augun til að láta á þetta reyna. Þaðan var svo haldið að Gunnarssteini og keyrt framhjá Gunnarshólma að Hlíðarenda. Þar er kirkjustaður, komumst við þó ekki í kirkjuna sem er mjög falleg. Þar er prestur síra Önundur Björnsson. Skammt frá kirkjunni er búið að koma fyrir styttu eftir Nínu Sæmundsson “Ung móðir”. Það var gaman að koma að Hlíðarenda þó kirkjan væri ekki til sýnis, í staðinn var útsýnið frábært heim til Eyja, sem blasa vel við ásamt Markarfljóti, Litla-og Stóra Dímon og Eyjafjallajökli í allri sinni dýrð og aðeins áleiðis inn í Þórsmörk. Á þessum söguslóðum hefur verið komið fyrir ágætum upplýsingu um staðina svo að auðvelt er að ferðast um Njáluslóð og fræðast.

Síðan héldum við að Bergþórshvoli þar sem Eggert Haukdal ræður ríkjum nú, en þar býr einnig síra Gunnar Björnsson og hans prestmaddama.

Síðan komum við aftur að Sögusetrinu á Hvolsvelli og þar biðu okkar uppbúin borð að hætti fornmanna í stórum skála í sögualdar-stíl. Þar var eldur á hlóðum, kertaljós á veggjum og á borðum. Myndarlegar griðkonur í sögualdarbúningum báru okkur þríréttaðan veislumat. Nutum við matarins, enda dagurinn orðinn nokkuð langur, þó með afbrigðum fróðlegur. Gerðum við þessu öllu góð skil.

Svona til að minna okkur á að við værum komin inn í 20. öldina þá var frábær harmonikkuleikari úr Fljótshlíðinni kominn til að þenja dragspilið fyrir okkur undir borðum. Tókum við lagið með honum, sem vænta mátti enda eru Heimaeyjarkonur alltaf til í að þenja raddböndin okkur til ánægju. Á heimleiðinni var komið við í Grímsnesinu og nokkrum konum skilað til sinna karla í sumarhúsin.

Komum við hinar í bæinn um kl. 23:00, auðvitað þreyttar en hæstánægðar með frábæran dag með skemmtilegum konum.

Eins og alltaf eru allar ákveðnar að koma í næstu ferð og vonar ferðanefndin að gangi eftir um leið og hún þakkar fyrir góða þátttöku..

Comments