Sumarferð Heimaeyjar 26. júní 1999. Að þessu sinni var á döfinni að fara í rólega dagsferð og rann upp yndislegur dagur með sólskini eftir rigningarsudda að undanförnu. Það var vel mætt í ferðina, 38 konur komu að Hótel Esju og var lagt af stað kl. 09:00. Stefnan var tekin á Sólheima í Grímsnesi og höfðum við gert boð á undan okkur þanig að við gengum strax að nýjum samkomusal þar sem Pétur Sveinbjörnsson framkvæmdastjóri Sólheima tók á móti okkur og sýndi myndir og fræddi okkur um upphafskonu þessa stórkostlega staðar. Það var sú stórmerka kona Sesselja Sigmundsdóttir sem stofnaði Sólheima árið 1930. Það tók hana mörg ár að koma þessu á laggirnar en í dag eru Sólheimar vistvænt samfélag og hefur verið útnefnt sem slíkt og er það fyrsti staðurinn á Íslandi sem fær slíka vottun. Frá Sólheimum var haldið í sumarhúsið hennar Löllu, sem er undir Búrfelli. Það tók tíma að finna staðinn, merkið átti að vera að það væri flaggað í heila stöng. Við sáum hús eftir hús með flaggi því allir sem eiga sumarhús flagga auðvitað þegar þeir eru á staðnum, þetta var laugardagur og allir komnir í sveitasæluna. En að lokum römbuðum við á rétta staðinn og það eru ekki slegin vindhöggin þar sem Lalla er annars vegar. Okkur var tekið með kostum og kynjum og var henni vel fagnað, þessari frábæru félagskonu. Geysir var næstur á dagskrá og hafði ferðanefndin hugsað sér að farið yrði í góðan en léttan göngutúr fyrir matinn, sem við ætluðum svo að snæða á Hótel Geysi. Ætluðum við að ganga að Svartagili í skógræktinni í Haukadal. Þarna er undrafagurt með þéttum skógi umhverfis. En viti menn það gerði þvílíka rigningu , skýfall, og varð ekkert úr þeirri gönguferð. Við skoðuðum hins vegar litlu kirkjuna í Haukadal þar sem hurðin er skreytt stórum hring sem er talin vara af göngustaf hálftrölls sem átti bústað í Bláfelli, en hann vingaðist við menn og bað um að vera jarðaður í kirkjugarðinum í Haukadal. Ferðin var hin besta og í góðu veðri eins og oftast. Ferðanefndin var ánægð með frábæra þátttöku og þakkar fyrir sig. |