Sumarferð Heimaeyjar 26. júní 1999.

Að þessu sinni var á döfinni að fara í rólega dagsferð og rann upp yndislegur dagur með sólskini eftir rigningarsudda að undanförnu.

Það var vel mætt í ferðina, 38 konur komu að Hótel Esju og var lagt af stað kl. 09:00.

Stefnan var tekin á Sólheima í Grímsnesi og höfðum við gert boð á undan okkur þanig að við gengum strax að nýjum samkomusal þar sem Pétur Sveinbjörnsson framkvæmdastjóri Sólheima tók á móti okkur og sýndi myndir og fræddi okkur um upphafskonu þessa stórkostlega staðar. Það var sú stórmerka kona Sesselja Sigmundsdóttir sem stofnaði Sólheima árið 1930. Það tók hana mörg ár að koma þessu á laggirnar en í dag eru Sólheimar vistvænt samfélag og hefur verið útnefnt sem slíkt og er það fyrsti staðurinn á Íslandi sem fær slíka vottun. 
Hér eru mikil umsvif orðin í framleiðslu. Gróðurhúsarækt er mikil og vinnsla og sala er á grænmeti og jafnframt er grænmetið notað í allskonar niðursuðu o.þ.u.l. Þar er einnig kertagerð og er lögð mikil áhersla á endurnýtingu allskonar. Sérstaklega tókum við eftir nýtni við að útbúa teppi, mottur og allsskonar listaverk úr gömlum efnum. M.a. fær staðurinn mikið af efnivið víða að, svo sem slitin sængurföt af Landspítalanum svo eitthvað sé nefnt. 
Verslun er á staðnum og létu konur ekki sitt eftir liggja og versluðu allt mögulegt í búðinni, sérstaklega þótti niðursuðan spennandi. 
Við sendum sérstakar kveðjur til íbúa Sólheima með þakklæti fyrir móttökurnar.

Frá Sólheimum var haldið í sumarhúsið hennar Löllu, sem er undir Búrfelli. Það tók tíma að finna staðinn, merkið átti að vera að það væri flaggað í heila stöng. Við sáum hús eftir hús með flaggi því allir sem eiga sumarhús flagga auðvitað þegar þeir eru á staðnum, þetta var laugardagur og allir komnir í sveitasæluna. En að lokum römbuðum við á rétta staðinn og það eru ekki slegin vindhöggin þar sem Lalla er annars vegar. Okkur var tekið með kostum og kynjum og var henni vel fagnað, þessari frábæru félagskonu. 
Hlaðborð beið okkar og var tekið vel til veislunnar. Kaffið og kökurnar runnu ljúflega niður. Tekið var lagið og barnabarn Löllu söng eitt ljúft “Geiralag” fyrir okkur. Þarna er greinilega efni í söngvara. 
Kvöddum við hjónin og fjölskyldu þeirra og héldum í sumarhús Fríðu og Jakobs og bauð félagið þar upp á hina árlegu upphitun ásamt Sómasamlokum í boði ferðanefndar. Þarna áttum við góða stund í frábæru veðri og spilaði Dollý á gítarinn svo við hinar gátum sungið og dansað með. Stjórnin afhenti bæði Löllu og Fríðu lítil grenitré frá Sólheimum sem þakklæti fyrir móttökurnar.

Geysir var næstur á dagskrá og hafði ferðanefndin hugsað sér að farið yrði í góðan en léttan göngutúr fyrir matinn, sem við ætluðum svo að snæða á Hótel Geysi. Ætluðum við að ganga að Svartagili í skógræktinni í Haukadal. Þarna er undrafagurt með þéttum skógi umhverfis. En viti menn það gerði þvílíka rigningu , skýfall, og varð ekkert úr þeirri gönguferð. Við skoðuðum hins vegar litlu kirkjuna í Haukadal þar sem hurðin er skreytt stórum hring sem er talin vara af göngustaf hálftrölls sem átti bústað í Bláfelli, en hann vingaðist við menn og bað um að vera jarðaður í kirkjugarðinum í Haukadal. 
Það var svo gengið að Hótel Geysi og snæddur stórkostlegur kvöldverður og dvöldum við þar til kl. 22:00 var þá komið hið besta veður og allt ilmaði af ferskleika eftir rigningadembuna. Héldum síðan í bæinn og var komið heim um kl. 23:00.

Ferðin var hin besta og í góðu veðri eins og oftast.

Ferðanefndin var ánægð með frábæra þátttöku og þakkar fyrir sig.

Comments