Ferðalög‎ > ‎

2012 - Sumarferð í Landmannalaugar

Sumarferðin 23. júní 2012  - Landmannalaugar.

Það voru kátar 24 konur sem héldu af stað í bláu rútunni og í bara nokkuð góðu veðri.  Var ferðinni heitið til Selfoss sem var 1. stopp.  Þar bættist í hópinn Helga Guðmundsdóttir, ættuð frá Vestmannaeyjum en býr á Selfossi.  Síðan var haldið áfram Skeiðaveginn og þar beið okkar Fríða Hjálmarsdóttir á vegamótum Skálholtsvegar og Skeiðavegar.  Þá vorum við orðnar 26 sem héldu áfram ferðinni.  Veðrið var orðið alveg frábært, sól og hiti og alveg tilvalið, þegar við komum í Árnes að fá sér ís.  Tókum okkur góðan tíma í ísinn en héldum svo áfram í átt að Þjórsárdal. Við keyrðum framhjá Gaukshöfða þar sem Gaukur Trandilsson, þekktasti höfðinginn á Stöng, var veginn.  Og ef ég man rétt þá var falleg mynd á 100 kallinum gamla þar sem fjárrekstur kemur rennandi niður af Gaukshöfðanum.  Þjórsárdalurinn var fallegur á að líta í góða veðrinu, mikill gróður og Þjórsáin virtist lygn og saklaus eins bæjarlækur.
Næst var stoppað við Hjálparfoss, fallegur foss innarlega í dalnum og friðsæl náttúruvin.  Nafnið kom til þegar ferðir yfir Sprengisand voru tíðari og ferðalangar fundu gras handa hrossum sínum og hægt að brynna þeim á annað en jökulvatn.   Þaðan var haldið að Þjóðveldisbænum sem er stutt frá fossinum.  Við gengum upp að bænum, smá spölur, en fórum ekki inn í bæinn því það kostar og við höfðum allar skilið budduna eftir í bílnum.  Fórum bara í kirkjuna sem er við Þjóðveldisbæinn.
Þá var næst á dagskrá að halda til Hrauneyja og þar beið okkar kjötsúpa.  Þegar við renndum í hlað á Hrauneyjum þá blasti við okkur stór auglýsing á húsinu „Welcome to Oblivion“  og var þá staffið sem vann við gerð myndarinnar „Oblivion“ með aðstöðu í Hrauneyjum.  Ekki sáum við Tom Cruse, búið að senda hann eitthvað inn á öræfi í tökur.  Það var vel tekið á móti okkur og kjötsúpan var reglulega góð, fullt af kjöti í súpunni og gátum við fengið ábót og svo var kaffi á eftir. 
Eftir súpuna og gott spjall var enn haldið af stað og nú var stefnan tekin á Landmannalaugar.  Vegurinn er malbikaður til Hrauneyja og smáspöl lengra en þegar malbikinu lauk þá tók við alveg hræðilegur vegur, holóttur og stórgrýttur.  Alveg ótrúlegt að hafa veginn svona slæman, því það fara fleiri rútur á dag yfir sumarið með túrista til Landmannalauga.  En við vorum með góðan bílstjóra sem fór þetta bara í góðum gír og til Landmannalauga komumst við á endanum.  Alltaf er gaman að koma þangað, fjöllin eru svo litríkt af jarðhitanum sem er þarna alls staðar og dökk brúnin á Laugahrauninu sem gnæfir yfir Ferðafélagsskálann er afskaplega dularfullt.  Undan hrauninu spretta margar heitar og kaldar lindir sem sameinast í Laugalæknum og þar getur fólk baðað sig í volgu vatninu.  Það er góð aðstaða þarna hjá Ferðafélaginu, góð hreinlætisaðstaða og fullt af borðum og bekkjum til að borða nestið.  Við höfðum með okkur Sóma-samlokur og flatkökur með hangikjöti sem Laufey bakaði, algjört sælgæti,  og var vel tekið til matar síns áður en haldið var heim á leið.
Þar sem vegurinn frá Hrauneyjum var svona slæmur, þá var ákveðið í samráði við bílstjórann að fara Dómadalsleiðina til baka, sem er gamla leiðin sem alltaf var farinn áður en vegurinn til Hrauneyja kom til sögunnar.  Það er falleg leið, með grösugum dölum og lækjum.

Við stoppuðum á leiðinni á góðum stað því það var kominn tími til að fá blush í glas og syngja svolítið.  En ekki gátum við stoppað lengi því tíminn leið og eftir að koma sér til Reykjavíkur.  Dómadalsvegurinn kemur inn á veginn sem liggur í gegnum Landsveitina, og ókum við framhjá  Galtalæk, Skarði og Leirubakka allt myndarleg býli.  Og mikið var falleg fjallasýnin þegar horft var til Eyjafjallajökuls með Þríhyrning og Tindfjallajökul í nágrenninu. 
Segir nú ekki af ferðum okkar fyrr en komið var á Selfoss og hringnum lokað.  Fríða og Helga kvöddu okkur þar og héldu hvor í sína áttina en við hinar héldum áfram til Reykjavíkur í kvöldsólinni.   Við komum í Mjóddina um kl. 22 og þökkuðum okkar góða bílstjóra fyrir þægilegan og öruggan akstur alla leiðina.  Hann stóð sig með eindæmum vel alla ferðina, meira að segja hjálpaði okkur að opna Blush flöskurnar.  
Við í ferðanefndinni þökkum félagskonum kærlega fyrir skemmtilegan og góðan dag, eins og alltaf er þegar við leggjum land undir fót.

Sólveig, Sirrý og Laufey


 

Comments