Sumarferð Heimaeyjarkvenna á Strandir 1995

Enn er komið að því að sækja og setja niður í töskur til að fara í ferðalag með Heimaey. 
Í þetta sinn er ákveðið að fara alla leið á Strandir og þá dugar ekkert minna en tveggja nátta ferð. Því eins og Geira segir í byrjun:

“Nú förum við í ferðalag, fáeinar kerlingar 
Og ég veit það verður svaka gaman. 
Við rúllum í norðurátt, í rútunni verður kátt 
og við munum syngja þar saman.”

Allar mættu glaðar og spenntar á Umferðamiðstöðina og ég held að ég sé lang-fyrst, en viti menn, þegar ég kem á staðinn kl.17:30 eru þegar mættar fimm konur, það á sko ekki að missa af neinu.  Jónsmessunóttin er framundan og 27 eldhressar Heimaeyjarkonur eru á leið á Strandir, eins langt og komist verður á rútu. Farkosturinn er rúta frá Guðmundi Jónassyni og heitir bílstjórinn Vilmundur. Við héldum að hann vissi allt um leiðina og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að pumpa hann um sögustaði og annað á ferðinni norður, annað kom í ljós, hann hafði aldrei-aldrei farið þetta áður. “Allar mættar” gall í mikrófóninn og allar hrópuðu “já” var ekið af stað. Voru allar boðnar velkomnar um borð, eins og kafteinninn í háloftunum væri þar á ferð, en hér var gefin gróflega áætluð ferðalýsing fyrir kvöldið. Það tók okkur tímana tvo að komast út úr bænum, algjör flöskuháls var út úr Reykjavík og hefði mátt halda að allir væru að fara sömu leið og við. Það tók okkur hálfan tíma að komast í Mosfellsbæ en þaðan var greiðfært. Svona smámuni létum við ekki á okkur fá, tókum bara upp söngtextana góðu frá árshátíðinni og komu þeir nú að góðu gagni. Þetta var einstaklega góður og kátur hópur, sem var ákveðinn í að njóta ferðarinnar.

Í Borgarnesi var boðið upp á “postulínsstopp”- vel þegið af flestum. Þarna kemur Adda Sigurðardóttir (Adda hárgreiðslu) í rútuna. Hún hafði fengið frí frá eldamennsku í veiðihúsi á Mýrunum og urðu veiðimennirnir að vera án hennar þessa helgi.

Áfram var haldið og aðeins stoppað að Brú í Hrútafirði þar sem bílstjórinn fékk sér eitthvað smávegis í gogginn og við notuðum tækifærið og heimsæktum postulínið aftur þar sem löng ferð var framundan á slíkra þæginda.

Á leiðinni í Drangsnes styttum við okkur stundir við söng og margir góðir brandarar og sögur voru sagðar í mikrafóninn. Þar sem Jónsmessunóttin var framundan vorum við að velta okkur upp úr því hvar og hvenær við gætum velt okkur upp úr dögginni svona til að halda í gamlar hefðir. Birna á Kirkjuhól var ekki í vandræðum frekar en endranær, við gætum náð okkur í votar birkigreinar og vætt hver aðra með þeim, aldrei ráðalaus hún Birna.

Þegar komið var í Drangsnes um kl. 24:00 beið okkar hlaðið borð með með kleinum, pönnukökum, smurðu brauði og heitu kaffi og þar að auki heilt samkomuhús sem var til afnota fyrir okkur.

Það var heiðurskonan okkar hún Gyða sem tók svona vel á móti okkur ásamt Bjarna manninum sínum og Lúkasi frænda hans og vini og seinna vini okkar allra. Eftir þessar góðu móttökur þótti gott að skríða undir sæng eða í pokann sína eftir langa en skemmtilega kvöldferð. Prinsessurnar okkar þær Sella (í London) og Ína (í Görðum) fengu heilt leiksvið útaf fyrir sig og var ekki hægt að sjá annað en að vel færi um þær.

Eftir góðan nætursvefn rann upp laugardagur “í drottins dýrðar koppalogni” eins og skáldið sagði, dásamlega hlýtt og gott veður með yndislegu ústýni og góðri fjallasýn og var farið strax af stað eftir morgunverðinn.

“Munið sundfötin” var kallað og ó já- flestar ætluðu sko að fara í sund, því sundlaugin var að sögn alveg sérstök..

Nú var keyrt sem leið lá fyrir Kaldrananes, í Bjarnarfjörð, framhjá Klúku, Kaldbakshorn og Kaldbaksvík þar sem við fengum óvænt og kærkomið stopp vegna þess að það sprakk á rútunni. Gengum við þarna um en síðar í sumar urðu þarna mikil skriðuföll. Þaðan var ekið í Veiðileysufjörð sem heitir þessu skrítna nafni vegna þess að fyrir löngu bjó þarna ekkja sem missti þrjá syni sína í sjóinn. Lagði hún á að ekki fengist bein úr sjó í þessum firði framar. Eitthvað hafa nú álögin dofnað síðan.

Þaðan var ekið með Reykjafjarðarkambinn á hægri hlið, eða Kambinn eins og hann er nefndur yfir í Djúpuvík. Þar er skemmtilegt að koma í gamla “braggann” sem orðin er að notalegu hóteli með fossinn Eiðrofa til að prýða hamrana fyrir ofan. Það var ekki stoppað þarna í þetta sinn, en keyrt áfram að Gjögri, og í Trékyllisvík þar sem við stoppuðum og þar var borið var fram kaffi og samlokur, sem að því að Geira segir, hafi tekið ferðanefndina alla nóttina að smyrja. Í lokin kom svo Rósa í Höfn með einhverja forláta flösku í poka, sem hún bauð öllum af og þótti gott—góður!!! 
Geira vill gefa þessum þúfum, sem við sátum á þarna nafnið Meyjarsæti.

Við ókum áfram í Munaðarnes til að berja Drangaskörð augum. Útsýni var hið besta til nálægra staða og sáust Drangaskörðin vel í því góða skyggni, sem við höfðum allan daginn. Þar sem ekki var ökufært í Ingólfsfjörð að þessu sinni var ákveðið að flýta sér í sundið og var keyrt í Krossnes, sem er yst á nesinu frá Norðurfirði farið, en þar er mjög skemmtileg sundlaug í sjávarkambinum. Það hefði verið gaman að fara ofan í og prófa laugina en þegar þangað kom var einhver kona úr REYKJAVÍK að kenna sund. Börnin voru reyndar öll í mat eða kaffi eða eitthvað og enginn í lauginni. En viti menn, hún vildi ekki hleypa okkur í laugina og þótti okkur það mjög miður. 
Kannski var þetta bara skynsamlegt hjá konunni, við hefðum sennilega tæmt hana af vatni hefðum við allar farið ofan í !!

Þar sem við erum allar svo jákvæðar ákváðum við að halda bara áfram ferðinni í sama góða skapinu og komum við næst að Gjögri. Við vissum að Addý Guðjóns og Kristmundur maður hennar eiga þarna sumarhús. Þau voru að vonum ekki þarna (Addý var því miður ekki með í ferðinni). Við kíktum á þá glugga sem við gátum og héldum síðan áfram ferðinni í Djúpuvík aftur og þá drukkum við kaffisopa með kökum og fíneríi hjá Evu hótelstýru þar. Þar var spáð í lopapeysur og fleira sem þarna voru til sölu.

Bílstjórinn fór að taka olíu á rútuna og einhver fór í sjoppuna til að gá hvað þar væri til sölu. Það var heldur fátt en nauðsynlegt svo sem harðfiskur, Labello varasalvi, dömubindi vængbrotin og kjallarasundhettur (smokkar), með jarðaberjabragði (sagði bílstjórinn). Ekki var mikið annað til, ekkert súkkulaði eða svoleiðis! 
Þaðan var svo ekið heim á leið í Drangsnes-samkomuhúsið okkar þessa helgi og vorum við SVO þakklátar honum Bjarna (hennar Gyðu) fyrir leiðsögnina, en hann þekkir þarna hverja þúfu og alla sem þarna búa. Það er alveg ómetanlegt þegar farið er í svona ferð að hafa með sér góðan leiðsögumann, sem fræðir okkur um staðina og söguna.

Nú var komið að því að grafa holu fyrir lærin sem átti að steikja, laga sósu (a la Adda) og hrásalat (a la Dollý) Aðrar lögðu á borð og skreyttu það en á meðan létu hinar, þessar óbreyttu “sig hafa það” láta líða úr sér ferðaþreytuna við spjall um margar ferðir, allt frá Hamborgarferð til Íslendingasagna hinna nýju, undir skeleggri stjórn Birnu á Kirkjuhól.

Veisluborðið var hið besta með bleikum dúkum og kertum og rósavín var borið fram í glösum á fæti og var maturinn alveg frábær.

Við höfðu þrjá herramenn til borðs, Bjarna, Lúkas og Vilmund bílstjóra og gerðu þeir góðan róm að þessu öllu. Eftir matinn tók Dollý gítarinn fram og var sungi og/eða dansað frameftir og var síðan skriðið í ból seint eða snemma eftir atvikum.

Grímsey er eyja á Steingrímsfirði og var meiningin að við sigldum þangað að morgni sunnudags.. En að hugsa sér, komið var hávaðarok og ófært þangað út svo að við þökkuðum Bjarna hans góða boð um siglingu og ákváðum að halda heim á leið um kl. 12:00. Eftir að við höfðum þrifið eftir okkur, sem allar gengu í með sóma, fórum við heim til Gyðu og Bjarna að Mýri og kvöddum þau mörgum kossum, Lúkas líka.

Síðan ókum við áleiðis suður og fórum yfir Laxárdalsheiði, niður í Dali, komum við í Búðardal (postulínsstopp að sjálfsögðu), Bröttubrekku þar sem Baula blasir við, Norðurárdalinn og síðan sem leið liggur í Borgarfjörðinn og heim til Reykjavíkur.

Ína þakkaði ferðanefndinni fyrir góða ferð og Fríða þakkaði konunum góða og skemmtilega samveru, eins hvað allar voru samstilltar í einu og öllu við að gera ferðina svona ánægjulega.

Vilmundi bílstjóra var færður áritaður Heimaeyjarfáni að skilnaði og var hann hinn hressasti með sína fyrstu ferð á Strandir.

Við endum síðan söguna á seinna erindinu hennar Geiru:

“Drangar og Djúpavík og Drangsnes eru engu lík 
ég vissi að það yrði svaka gaman. 
Síðan við höldum heim á ný eftir skemmtilegt helgarfrí. 
Var þar ekki svakalega gaman?”

Comments