Ferðalög‎ > ‎

2015 - Sumarferð að Borðeyri

Sumarferð 2015

Sumarferðin 2015 var farin laugardaginn 13. júní. Lagt var af stað úr Mjóddinni kl. 10:00. Í ferðanefnd voru Marý, Gunný og Gunnhildur. Í upphafi ferðar afhentu þær hverri konu „neyðarpoka“ sem innihélt ýmsar nauðsynjar sem grípa mátti til á leiðinni. (Súkkulaði, sherry ofl.) sem nauðsynlegt er í svona  ferð. Veðrið var yndislegt, sólskin og logn. Gunnhildur sagði frá því sem fyrir augu bar og benti konum á álagsteininn  fyrir neðan Grafarholt. Reynt var að fjarlægja steininn þegar Vesturlandsvegur var byggður árið 1970 og 1971 en tókst ekki betur til en svo að ýmis verkfæri og vélar biluðu við það. Steinninn var samt færður. Bjargið er talið um 50 tonn að þyngd og það klofnaði við flutninginn og er nú í tveimur hlutum sem hvíla hlið við hlið á hlaðinni undirstöðu innan girðingar skammt frá veginum.

Athafnamaðurinn Thor Jensen lét byggja Korpúlfsstaði árið 1930 og var það stærsta mjólkurbú á Íslandi.

Landnámsmaðurinn þess svæðis sem ekið var um í átt að Mosfellsbæ var Þórður skeggi sem bjó að Skeggjastöðum. Sveitarfélagið hét Mosfellshreppur fram til 9. ágúst 1987. Það er sjöunda stærsta bæjarfélag á Íslandi með rúmlega 9000 íbúa. Atvinnusaga bæjarins er á margan hátt sérstök. Áður var landbúnaður mikill en nú er aðeins eitt kúabú starfrækt í Mosfellsbæ. Sauðfjárbúskapur er nánast aflagður en hrossaeign er mikil. Í sveitarfélaginu er vagga kjúklingaræktar á Íslandi og eini staðurinn á Íslandi þar sem ræktaðir eru kalkúnar. Ylrækt er mikil í Mosfellsbæ og var fyrsta upphitaða gróðurhús landsins reist í Mosfellssveit árið 1923.

Mikill jarðhiti er á svæðinu en megnið af því vatni er leitt til Reykjavíkur. Grænmetis- og blómaframleiðendur hafa nýtt sér kosti heita vatnsins. 1896 var reist ullarverksmiðja við Álafoss og þar reis verksmiðjuhverfi í tímans rás. Nú er allur iðnaður aflagður í Álafosskvos en ýmiss konar listastarfsemi blómstrar þar í gömlu verksmiðjubyggingunum og setur lit á bæjarsamfélagið. Menning hefur um langt árabil skipað stóran sess í sögu Mosfellsbæjar, þar sem helst má nefna búsetu Nóbelsskáldsins Halldórs Kiljan Laxness að Gljúfrasteini í Mosfellsdal.

Meðan Ísland var hersetið í seinni heimsstyrjöldinni voru víða reistir spítalar til að þjóna hernum. Reis þá mikið spítalahverfi í mynni Mosfellsdals. Má sjá rústir bygginga á Ásunum.

Esja er eitt af einkennum höfuðborgarsvæðisins og er hæð hennar 914 metrar. Fyrir 2.8 milljónum ára gaus Kjalarneseldstöðin, megineldstöð gosbeltis sem liggur frá Reykjanestá um Þingvallasveit norður í Langjökul. Í milljón ár var eldstöðin virk en á þeim árym gengu einnig 10 ísaldir yfir.

Kalksteypa er allfrábrugðin steinsteypu. Hún var notuð í fyrstu steinhús hérlendis. Innflutningur kalks hófst 1752, enda var það notað við byggingu Viðeyjarstofu. Ofan við gilið í Mógilsá er gömul kalknáma en kalksteinsnám hófst þar 1876 og var þá hlaðinn kalkofn við Rauðará. Kalkið var flutt á bátum til Reykjavíkur og brennt í ofni sem stóð nálægt þar sem nú er Seðlabankinn. Gatan þar heitir einmitt Kalkofnsvegur. Eitthvað af kalkbyggðum húsum standa enn í dag, oftast er húsið Lækjargata 10 nefnt sem dæmi. Kalkið var notað sem bindiefni á milli steina í hleðslum og einnig til að hvítta. Kalknám í Esju og kalkbrennsla í Reykjavík lagðist niður 1879. Fyrsta sementssteypuhús í Reykjavík var Barónsfjós við Hverfisgötu árið1899.

Í Kjalnesinga sögu er talað um bæinn Esjuberg þar sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson bjó þegar hann kom til Íslands frá Suðureyjum í Skotlandi. Í sögunni er sagt frá því að írsk kona að nafni Esja hafi komið í Kollafjörð og eru leiddar líkur að því að nafnið Esja sé írskt að uppruna. Sennilegri skýring er þó að orðið sé komið úr norrænu, en það er meðal annars þekkt í Noregi, og merkir „flögusteinn“.

Kvikmyndin Síðast bærinn í dalnum var Frumsýnd 1950. Myndin gerist upp í sveit þar sem allir búendur hafa flutt í burtu vegna trölls og tröllskessu sem hafa hrakið þau í burtu nema einn bóndi og fjölskylda hans, þau sitja sem fastast því amman á bænum á töfrahring sem verndar þau. Myndin er í anda gömlu þjóðsagnanna, fjallar um börnin í sveitinni, þau Sólrúnu og Berg, góða álfa í hólum og illvíg tröll í fjöllum og hvernig hið góða ber sigurorð af hinu illa í lokin.

Hvalfjarðargöng eru 5.770 metrar. Þau fara dýpst 165 metra undir yfirborð sjávar. Um 5.500 bílar ferðast gegnum göngin á sólarhring. Göngin voru grafin á árunum 1996-1998 og voru opnuð 1998. Leystu göngin veginn um Hvalfjörð af hólmi en hann var lagður um 1930.

Hafnarfjall er 844 metra hátt um 4 km suðaustur af Borgarnesi. Fjallsins er getið í Landnámabók og þar nefnt Hafnarfjöll og náði landnám Skallagríms Kveldúlfssonar að því. Undir fjallinu er Hafnarskógur. Vindasamt er undir Hafnarfjalli.

Borgarfjarðarbrúin var vígð í september árið 1981 og stytti það leiðina yfir Borgarfjörðinn um 11 kílómetra.

Borgarnes tengist Egilssögu órjúfanlegum böndum. Höfuðpersóna Eglu kemur víða við í örnefnum bæjarins. Í skrúðgarðinum Skallagrímsgarði er minnismerki sem sýnir Egil flytja lík Böðvars sonar síns, sem drukknaði í Hvítárósum. Vestan við Borgarnes er Brákarey sem kennd er við Þorgerði brák ambátt á Borg sem ól Egil Skalla-Grímsson upp fyrstu árin.

Ekið var í Borgarnes þaðan um Norðurárdal og upp á Holtavörðuheiði.

Norðurárdalur er norðan við Stafholtstungur og nær að Holtavörðuheiði. Um hann rennur Norðurá. Í dalnum hefur myndast þéttbýli í kringum háskólann á Bifröst og búa þar um 250 manns. Dalurinn var áður sérstakur hreppur, Norðurárdalshreppur en þann 1994 varð hreppurinn hluti af Borgarbyggð.

Samvinnuskólinn Bifröst var stofnaður 1918 undir nafninu Samvinnuskólinn og var þá staðsettur í Reykjavík. Skólinn var rekinn af Sambandi íslenskra samvinnufélaga og var ætlaður fyrir meðlimi samvinnuhreyfingarinnar. Fyrsti skólastjóri var Jónas Jónsson frá Hriflu. Skólinn flutti árið 1955 í land Hreðavatns í Norðurárdal. 1988 var skólinn gerður að skóla á háskólastigi. Bifröst er brú í norrænni goðafræði. Brúin liggur milli Ásgarðs þar sem goðin eiga heima og Miðgarðs þar sem mennirnir búa.

Fyrsta steinsteypuhúsið á Íslandi reis í Sveinatungu í Borgarfirði árið 1895. Sigurður Hansson steinsmiður byggði það og hafði áður byggt steypusteinahús í Görðum á Akranesi á árunum 1876-1881. Við bygginguna að Görðum notaði Sigurður kalksteypu, gerða úr grjótmulningi, blönduðum kalki og litlu einu af sementi. Borgfirðingar áttu því bæði fyrsta kalk- og stein-steypuhúsið á Íslandi og var það sami maður sem annaðist byggingu beggja.

Fornihvammur, sem er eyðibýli efst í Norðurárdal var áður síðasti bær áður en lagt var á Holtavörðuheiði. Þar var um árabil rekið veitinga- og gistihús. Fornihvammur var í eigu Hvammskirkju í Norðurárdal þegar Einar Gilsson frá Þambárvöllum byggði þar upp að nýju árið 1853. Bærinn varð áningarstaður ferðamanna sem fóru yfir heiðina. Árið 1883 byggðu hjónin Davíð Bjarnason og Þórdís Jónsdóttir þar rúmgóðan bæ í því skyni að veita ferðamönnum beina. Þegar hafið var að gera bílfæran veg norður var ljóst að umferð um Holtavörðuheiði mundi aukast mjög og varð úr að ríkissjóður keypti jörðina og Vegagerðin lét reisa þar gistihús sumarið 1926. Það var stækkað 1947 og gátu eftir það 50 manns gist þar og um 150 manns fengið þar mat samtímis. Áætlunarbílar milli Reykjavík og Akureyrar áttu þar fastan viðkomustað. Eftir því sem vegirnir bötnuðu fækkaði þó viðkomum í Fornahvammi og umhverfið þótti ekki hafa upp á margt að bjóða fyrir almenna ferðamenn. Svo fór að gistihúsið hætti starfsemi vorið 1974 og fór jörðin í eyði. Þann 5. október 1983 var húsið brennt til grunna því það var talið ónýtt.

Í bókinni Borgfirsk blanda I. segir frá fyrstu ferð á bíl yfir Holtavörðuheiði.
  Sumarið 1918 námu bílar land í Borgarfjarðarhéraði. Fyrsta ökuferðin yfir Holtavörðuheiði var farin 10. júlí 1927. Það voru sex menn sem lögðu af stað það sunnudagskvöld á litlum Ford vörubíl. Húsi var komið fyrir á palli, í því voru sæti og einn legubekkur. Sæmilegur vegur var allt að Kattarhryggsgili sem er á milli Sveinatungu og Fornahvamms. Brú var á gilinu en svo tóku við malar og móhellukast sem snarhallaði niður að Norðurá. Var hliðarhallinn svo mikill að litlu munaði að bíllinn ylti. Var svo ekið að Fornahvammi. Gestgjafinn, Jóhann Jónsson var vakinn og beðinn að lána járnkarl og skóflu. Slóst Jóhann í för með hópnum. Frá Fornahvammi var ekið að Heiðarsporði. Víða þurfti að velta stórgrýti og jafna grafnar moldargötur en versti kaflinn var þú undan svonefndum Krók. Þegar upp á heiðina kom batnaði vegur og mátti teljast sæmilegur. Þó var þar víða allerfitt vegna bratta og hliðarhalla. Bíllinn rann tvisvar út af veginum og út í skurð, en tókst að lyfta honum upp á veginn aftur.

Karakúlféð flutti svo kallaða mæðiveiki til Íslands 1934 en til stóð að kynbæta íslenskar ær með hrútum af þessum stofni sem fluttir voru inn. Var það í því skini að fá dýrmæt skinn af unglömbum. Karakúlféð var upprunnið í Asíu það bar smitið í sér en var ekki veikt heldur ónæmt sjálft fyrir veikinni. En heilbrigður og einangraður sauðfjárstofn hér á eyjunni var fljótur að taka smitið til sín. Af þessum innflutningi hófst landplága eða faraldur sem fór um landið eins og sinueldur og varð að skera sauðfé í þúsunda tali í flestum sýslum landsins. Girtar voru varnarlínur sem við þekkjum enn á sýslumörkum.

Veðrið á Holtavörðuheiðinn var ótrúlega gott og var þar gert stutt stans til að rétta úr stirðum limum og anda að sér fersku fjalllofti. Hæsta fjall sem nær inn á Vestfirðina, Tröllakirkja sem er nyrsti hluti Snjófjalla á Holtavörðuheiði. Tröllakirkja er 1001 metri yfir sjávarmál. Sagan segir að þar hafi verið þingstaður trölla á Íslandi. Tröll eru í mannsmynd en langtum stærri og hrikalegri og stundum talin einhvers konar eldri kynstofn en mennirnir. Tröll eru því heiðin og þola illa sálmasöng og hljóm í kirkjuklukkum. Þau búa langt uppi í hömrum og hellum og eru því ósjaldan kölluð bergbúar ... Sum þeirra þola ekki dagsljós og verða að steini ef sól nær að skína á þau. Þau eru kölluð nátttröll.

Þótti upplagt að kíkja í neyðarpokann en þar sem ekkert var þar sem sefað gat tröllin í fjöllunum voru sungin fyrir þau nokkur lög við gítarundirleik Marý á Kirkjubæ.

Maður nokkur sagði svo frá í samtali við Pressuna: „Ég ók yfir Holtavörðuheiði og var á leið á Sauðárkrók að halda tónleika. Það var skollið á svartamyrkur. Á miðri heiðinni kviknar ljós í mælaborði bílsins. Ég var á bílaleigubíl og þekkti bílinn ekki almennilega. Þegar ég skoðaði ljósið nánar áttaði ég mig á að það gaf til kynna að farþegi í framsæti bílsins væri ekki með bílbelti!“ segir Pétur og bætir við: „Og ég var einn í bílnum!“

Jónas Sveinsson fæddist 1895 lauk læknaprófi 1923. Árið 1920 var hann, snemma sumars á lið norður á Siglufjörð. Var hann pósti í Fornahvammi samferða norður yfir Holtavörðuheiði. Fékk hann lánaðan hjá honum góðan hest og átti líka lögg af brennivíni sem stuðlaði að því að gera samverustundir þeirra ánægjulegri.
  Í þessari ferð bar fátt til tíðinda þar til þeir komu í Grænumýrartungu. Á þeim bæ átti hann jafnan, er hann var á ferð, vísar höfðinglegar móttökur og tilhlökkun að koma þar við þáttur í ævintýri ferðalagsins. En í þetta sinn beið hans annað en hvíld. Þar var kominn sendiboði frá Einari bónda Elieserssyni í Óspaksstaðaseli þeirra erinda að sitja fyrir Jónasi Sveinssyni læknanema sem spurst hafði að vera myndi í för með Jóhanni pósti og biðja hann að koma tafarlaust í guðsbænum fram eftir og hjálpa konu Einars sem var í barnsnauð.
  Jónas hafði aldrei verið viðstaddur fæðingu og aldrei þuklað vanfæra konu. En ljósmóðirin var ráðþrota og sængurkonan svo aðframkomin að lífsvon færi engin ef læknishjálp bærist ekki strax. Hann hlaut því að fara.
  Lögðu þeir af stað og lá leiðin yfir Hrútafjarðará og að rýru heiðarkoti með hálfföllnum bæ.    Konan lá í þröngu rúmi undir sligaðir súð, ákaflega þjáð og sýnilega að bana komin. Yfirsetukona var hjá henni, gömul kona og nærfærin en hún gat ekki líkna sjúklingnum. Jónas skoðaði konuna. Annar handleggur barnsins var fallinn fram og þrautir konunnar óskaplegar. Jónasi féllust hendur og sagði hann bónda sem var að hann hefði engin hjálpartæki meðferðist og teldi sig getulítinn til hjálpar en þó ætlaði hann að ganga út undir túngarð og hugsa málið. Og hvaða ráð skyldi túngarðurinn á Óspaksstaðaseli geta gefið honum sem dygðu til að bjarga fimm barna móður í barnsnauð? Þarna lagðist Jónas niður og minnist þess í frásögn sinni hvernig maríuerlurnar flögruðu við höfuð hans þegar þær voru að ná sér í strá til hreiðurgerðar.
  Allt í einu var bóndinn komin til hans og lét hann þau orð falla að nú mætti ekki tæpara standa með líf konu sinnar.
  Jónas gekk með honum til bæjar. Hann þvoði sér eftir bestu getu allt til axla. Naut hann ráðleggina gömlu ljósmóðurinnar sem lagði til að sængurkonunni yrði komið fyrir þversum í rúminu. Jónas hafði hvorki svæfingar né deyfilyf meðferðist og þegar hann renndi handleggnum inn í legið voru krampadrættirnir í leginu slíkir að það dró úr honum allan mátt. Loks gat hann snúið barninu og þá fór allt að ganga betur. Að vísu afar hægt enda sængurkonan mjög máttfarin. Erfiðlegast gekk honum að ná út herðum og höfði. Það hafðist að lokum en barnið var löngu dáið. Sú gleði er hann fann til var blandin auðmjúku þakklæti fyrir þá náð að fá að verða til bjargar í neyð.
  Konunni heilsaðist vel. Nokkrum árum síðar þegar Jónas var héraðslæknir á Hvammstanga gerði hann á henni keisaraskurð og náði frá henni frískum strá sem hún lét heita Jónas í höfuðið á honum. Sá keisaraskurður mun hafa verið sá fyrsti sem gerður var á svæðinu frá Skaga vestur á Hornstrandir. Jónas þessi Einarsson var lengi kaupfélagsstjóri á Borðeyri.

Þórbergur Þórðarson segir frá hrakförum sínum í kvennamálum í Hrútafirði í bókinni Íslenskur aðall. Hann var í vegavinnu í Hrútafirði og varð þar ástfanginn af stúlku. Eftir að vegavinnunni lauk réði hann sig í síld á Siglufirði og um haustið var hann staddur á Akureyri. Fór hann þá aftur að hugsa um elskuna sína. Hik var á honum en hann lét samt sauma á sig ný föt og fékk sér hatt. Varð úr að hann tók sér far með skipinu Hólar þann 24. september og ætlaði í land á Hvammstanga. Hann var orðinn auralítill og fannst hann umkomulaus og efaðist um eign ágæti. Ekki varð úr að skipið kæmi við á Hvammstanga og tók hann það til bragðs að laumast af skipinu í Norðurfirði og ákvað að ganga í Borgarnes. Hann lagði af stað og hugsaði um stúlkuna sína en þegar kom að takmarki þessarar erfiðu göngu og hann nálgaðist bæ stúlkunnar hóf hann upp raust sína og söng sér til hressingar hugrekkjandi hvatningarljóð eins og Öxar við ána og Táp og fjör og frískir menn. Hann kom við á bæjum og var sums staðar boðið kaffi. Svo lallaði hann af stað og gekk hægar og hægar eftir því hann þokaðist nær hinum heilögu heimkynnum elskunnar sinnar, stiklandi áfram titrandi skrefum af eftirvæntingu. Þegar kom að vegamótum einblíndi hann niður í veginn og þá var eins og talaði væri til hans utan úr þögninni: „Þetta er ósvífinn dónaskapur og frekja. Láttu ekki sjást að þú standi þarna lengur.“ Og hann gekk af stað niðurlútur og dapur. Leit aðeins nokkrum sinnum um öxl þar til bærinn var eilíflega horfinn fyrir næsta leiti. Hann gekk svo alla leið til Reykjavíkur.

Næsti áfangastaður kátra kvenna úr Kvenfélaginu Heimaey var Borðeyri þar sem tók á móti hópnum Ásdís Guðmundsdóttir sem rekur gistingu í Tangahúsinu. Höfðum við samið við hana um að hafa tilbúinn hádegisverð og hann var ekki af verri endanum; Indverskur kjötréttur með salati og kaffi og terta í eftirrétt. Gerðu kvenfélagskonur matnum góð skil og tóku svo lagið áður en kvatt var og lagt af stað.

Hrútafjörður er lengsti fjörðurinn við Húnaflóa og Borðeyri er eitt fámennasta þorp landsin. Árið 2007 bjuggu þar 25 manns. Í fornum heimildum er oft getið um Borðeyri í sambandi við siglingar og farmennsku. Svo virðist sem á þjóðveldisöld hafi mikið verið siglt á Hrútafjörð, kaupskipin sett upp á Borðeyri og kaupmenn þeirra tíðar reist þar búðir eða tjöld og haldið kaupstefnur eins og kemur fram í Laxdælasögu þegar Ólafur Pá sigldi til Noregs.

Nafn eyrarinnar er dregið af því að þegar landnámsmaðurinn Ingimundur gamli kom í Hrútafjörð. Segir svo frá því í Vatnsdæla sögu: Þeir fóru upp Norðurárdal og kom ofan í eyðifjörð einn. Og um daginn er þeir fóru með þeim firði þá hlupu úr fjalli að þeim tveir sauðir. Það voru hrútar. Þá mælti Ingimundur: „Það mun vel fallið að þessi fjörður heitir Hrútafjörður.“ Síðan komu þeir í fjörðinn og komu á eyri eina. Fundur þeir þar borð stórt nýrekið. Þá mælti Ingimundur: „Það mun ætlað að vér skulum hér örnefni gefa og mun það haldast og köllum eyrina Borðeyri“.

Borðeyri varð löggiltur verslunarstaður 1846 og þar var rekin verslun til ársins 2008. Með fyrstu kaupmönnum sem ráku þar verslun var Richard P. Riis sem reisti þar verslunarhús.
  Á tímum sauðaútflutnings og Vesturferða var Borðeyri mikilvæg útskipunarhöfn og var sá staður á landinu þar sem flestir vesturfarar fóru um borð í skip.
  Árið 1878 reisti kaupmaðurinn Valdimar Bryde verslunarhús á Borðeyri. Með kaupskipinu Júnó sem flutti húsaviðinn og verslunarstjórann til Borðeyrar var fátækur danskur unglingspiltur, sem var kominn frá Kaupmannahöfn til Borðeyrar sem verslunarlærlingur og varð síðar bókari Brydeverslunar. Þessi maður átti eftir að verða þjóðkunnur sem einn af mestu athafnamönnum hér á landi. Nafn hans var Thor Jensen. Í minningu Thors er að finna góða frásögn af verslun á Borðeyri og lífskjörum fólks í Hrútafirði. Þar fer hann lofsamlegum orðum um sveitarfólkið er sótti verslun til Borðeyrar og segir meðal annars: „Það kom greinilega í ljós, hve lítið menn tóku út af óþarfa varningi, hve þjóðin var sparsöm og hve mikla áherslu allur almenningur lagði á það að komast af á eigin spýtur“

Verslunarsvæði Borðeyrar var afar stórt á þessum árum. Þangað sóttu bændur úr suðurhluta Strandasýslu, úr Dalasýslu allt vestur í Saurbæ, úr Norðurárdal og Þverárhlíð í Borgarfirði og úr Húnavatnssýslu austur að Vatnsdal. Útflutningur frá Borðeyrarverslunum var á næstu árum mikill og erlend skip fjárkaupmanna tóku þar fé svo þúsundum skipti bæði úr fjarlægum og nærliggjandi sveitum.
  Alla tíð meðan lifandi fé var flutt út var aðalútflutningshöfnin fyrir Norðurland á Borðeyri og önnur á Akureyri.

Frá því er sagt að á hverju ári söfnuðust sama á Borðeyri hópur vesturfara og biðu þar eftir skipi. Enginn gat vitað hvenær skipið kæmi og áræddi fólkið ekki að fara lengra frá staðnum en á næstu bæi. Vesturfarar höfðu með sér tjöld og viðlegubúnað og komu sér fyrir á tanganum, sumir á austureyrinni, upp í lækjargilinu eða yfirleitt hvar sem tjaldstæði var að finna. Eitt sinn biðu um 300 mans á Borðeyri eftir skipi í sjö vikur. Það var árið 1883. Skipið sem átti að taka fólkið laskaðist í ís á Norðurfirði og var gert við það þar til bráðabirgða, en síðan siglt til Englands. Fólkið sem beið á Borðeyri við lélegan kost og slæman aðbúnað vissi ekkert um ferðir skipsins fyrr en löngu síðar. Flest þetta fólk hafði tekið sig upp frá búum sínum fyrir fátæktar sakir og vegna hinna miklu harðinda.

Á fyrstu árum heimstyrjaldarinnar síðari jókst íbúatala í kauptúninu skyndilega um tíma. Þá tóku Bretar sér bólfestu á Borðeyri og hugðust mæta þar innrás Þjóðverja í Hrútafjörð. Bækistöðvar þeirra voru í þrem eða fjórum bröggum í þorpinu, og þeir höfðu einnig sýslumannshúsið og félagsheimilið til afnota. Ekki var þetta fjölmennt lið, á bilinu 20 til 40 mans. Aftur á móti höfðu Bretar og síðar Bandaríkjamenn afar fjölmennt lið í Reykjaskóla og nágrenni hans. Þann 13. febrúar 1942 drukknuðu 18 breskir hermenn í Hrútafirði út af Borðeyri. Alls lentu 24 Bretar í sjónum, af fjórum smákænum og prömmum sem allir sukku, en Haraldur Jónsson sem þá var símritari á Borðeyri gat með hjálp hermanns bjargað sex þeirra í land. Herinn hafði varðstöðu á melbarðinu ofan við Borðeyri rétt við þjóðleiðina. Þar næddi um varðmenn og fátt bar til tíðinda, og eflaust hefur dátum stundum leiðst staðan í varðskýlinu. Þeir gerðu gælur við hunda ferðamanna og tókst að hæna svo kyrfilega til sín fjárhund frá einum bóndanum að hann yfirgaf húsbónda sinn og settist að hjá setuliðinu breska. Varðhundur þessi sá einn um það að fara í „ástandið“ í plássinu.

Þegar landsíminn lagði línu til Ísafjarðar árið 1908 var fullkomin fyrsta flokks símstöð sett upp á Borðeyri. Þrem árum síðar var reist vandað tvílyft steinhús yfir símstöðina og stendur það enn á þeim stað sem fyrsta húsið á Borðeyri stóð.

Við símstöðina starfaði alltaf nokkuð af fólki. Auk símstjóra var símritari og nokkrar stúlkur unnu sem talsímaverðir. Í símahúsinu var einnig alltaf starfandi pósthús. Það má því með réttu segja að þorpið setti ofan við flutning símstöðvarinnar að Brú 1951, enda telja sumir tímann sem hún starfaði þar blómaskeið Borðeyrar.
  Eftir að stöðin flutti inn í Brú fékk gamla landsímahúsið nýtt hlutverk. Það varð að skólahúsi fyrir hreppinn og í því starfaði barnaskólinn frá haustinu 1951 þar til reist var nýtt skólahús, stórt og myndarlegt. Þangað flutti grunnskólinn 1974. Nýja skólahúsið er einnig miðstöð félagslífs fyrir sveitina, Lestrarfélag Bæjarhrepps hefur þar aðsetur og eins hefur Sparisjóður Hrútfirðinga skrifstofu sína og afgreiðslu í húsinu.
  Um skeið var sjúkraflugvöllur á Borðeyrarmel, en hann er nú aflagður fyrir nokkru.

Ísland var hernumið af Bretum 10. maí 1940. Fljótlega dreifðust þeir um landið. Í Hrútfirði tóku þeir Reykjaskóla herskildi. Þar voru byggðir braggar og stærðar fallbyssa sett niður fremst á Reykjatanga og vísaði hlaup hennar oftast út á fjörðinn. Þegar Reykjatangi var fullbyggður dvöldust þar mörg þúsund hermenn. Birgðaskip, sum mjög stór lögðust á víkina við tangann. Þegar íslensk skip er áttu leið til Borðeyrar sigldu inn fjörðinn voru þau stöðvuð með því að skjóta af fallbyssunni. Samtímis lagði vélbátur af stað frá Reykjatanga og voru þar breskir yfirmenn á ferð að kanna hvaða skip væri þar á ferð. Herinn á Reykjatanga notaði kastljós eftir að dimma tók og voru þau mjög sterk. Beindu þeir ljósunum ýmist upp í loftið eða á strönd Hrútafjarðar. Bóndinn á Kjörseyri þurfti út að kvöldlagi og var með lukt með sér. Þetta þurftu Bretarnir að athuga og létu geislann fylgja honum alveg þangað til hann var kominn heim aftur. Datt honum eitt sinn í hug að nýta sér þennan ljósagang við að leita að kindum og gekk það eftir. Hafði hann á orði, þegar hann kom heim að nú væri hann farinn að nýta breska herinn til fjárgæslu.

Úr Hrútafirði lá leið okkar um Laxárdal. Sagan segir að á öndverðri 19. öld hafi búið að Skriðnesenni í Bitru bóndi er Finnur hét. Kona hans hét Guðrún, en fósturdóttir Elísabet. Vinnumaður var hjá þeim er Hallur var nefndur. Hallur lagði hug á Elísabetu, en það var mjög á móti vilja þeirra hjóna. Hallur átti að róa undir Jökli um veturinn og áður hann fór til sjávar beiddi hann Elísabetar, en var synjað og fór því að heiman í þungu skapi. Um veturinn fyrir þorra fór Elísabet sem oftar til kirkju að Eyri og er hún kom heim aftur um kveldið settist hún á rúm sitt, tók ask sinn og ætlaði að fara að borða, en í sama vetfangi snarar hún frá sér askinum, segir að mórauð flygsa ætli að sér, fær niðurfallssýkiskast og var þegar örend.
  Upp frá þessu fór að örla á reimleika á Enni; fólk fór að láta illa í svefni, varð myrkfælið og sótti illa að þá það kom á aðra bær. Guðmundur hét bróðir konunnar, heimamaður á Enni; að honum sótti hvað mest; sýndist honum það vera strákur búkmikill en klofstuttur, í mórauðri úlpu með lambhúshettu á höfði og skott aftur úr. Nú fóru fleiri að sjá draugsa og á sama hátt og kölluð því Móra. Guðmundi þótti varla vært um veturinn að Enni; hann fór því að heiman og vestur á sveitir til fjölkunnugs manns. Hann varð þar þess vísari að í Rifi hafi drukknað menn á skipi um eða eftir nýjár og hafi einn þeirra heitið Friðrik. Þennan Friðrik muni Hallur hafa fengið mann til að vekja upp og sent Elísabet og fólki hennar og svona sé Móri undir kominn.

Nokkru síðar fluttu þau hjón Finnur og Guðrún sig að Sólheimum í Laxárdal og upp frá því var draugurinn nefndur Sólheima-Móri. Hann varð oft skepnum að lífs eða lima tjóni.
  Jóhann nokkur var vinnumaður í Sólheimum. Var hann harðskeytin og ófyrirleitinn og kvaðst aldrei myndi Móra hræðast. Eitt kvöld kom hann ekki heim og var leitað. Fannst hann dauður inn i heytóft og líkaminn allur blár og blóðugur. Þá er lík Jóhanns var flutt í kirkjuna sýndist fólki af næstu bæjum sem sá til líkfylgdarinnar sem maður riði fyrir aftan líkið á hestinum, en hesturinn sligaðist undir líkinu á miðri leið og var hann þó talinn úlfaldagripur.


Í Laxdælasögu segir að Ketill flatnefur var hersir ríkur í Noregi. Ein af dætrum hans var Unnur djúpúðga sem í nútímafrásögnum er alltaf nefnd Auður djúpúðga. Ketill flatnefur flúði ofríki Haralds hárfagra og hélt með fjölskyldu sína vestur um haf til Skotlands. Unnur djúpúðga settist þar að og bjó á Katanesi, nyrst í Skotlandi. Hún tók þá ákvörðun að sigla til Íslands. Tók hún land í Borgarfirði. Segir í Laxdælu að hún hafi eitt sinn farið yfir Breiðafjörð og komið að nesi nokkru þar sem hún át dagverð. Það heitir síðan Dögurðarnes. Síðan hélt hún skipi sínu inn eftir Hvammsfirði og kom þar að nesi einu, en þar tapaði hún kambi sínum og heitir nesið síðan Kambsnes.

Í sögunni segir frá láti Unnar og að á þeim tíma hafi Dala-Kollur nokkur tekið sótt og andast. Höskuldur var hans sonur, vænn og gervilegur. Tók hann við búi föður síns og bjó á Höskuldsstöðum í Laxárdal. Kona Höskuldar var Jórunn Björnsdóttir úr Bjarnarfirði á Ströndum væn kona og ofláti mikill. Hún var skörungur í vitsmönnum og þótti besti kvenkostur á öllum Vestfjörðum. Jórunn Bjarnadóttir tók við búsumsýslu með bónda sínum á Höskuldsstöðum og auðsætt að hún mundi vitur og vel að sér og margt vel kunnandi og heldur skapstór jafnan. Vel var um samfarar þeirra Höskulds. Höskuldur gerðist höfðingi mikill, ríkur og kappsamur.
  Hrappur hét maður er bjó í Laxárdal, fyrir norðan ána, gegnt Höskuldsstöðum. Sá bær hét síðan á Hrappsstöðum. Hrappur var ágangssamur við nábúa sína og illa liðinn. Nábúi Hrapps var Þórður goddi sem bjó á Goddastöðum.

Höskuldur sigldi til Noregs þar sem hann dvaldi einn vetur en Jórunn varðveitti bú þeirra og börn. Í Noregi keypti Höskuldur mállausu ambáttina Melkorku, gerði hana að frillu sinni og flutti hana með sér til Íslands. Ekki var Jórunn ánægð með að fá Melkorku inn á heimili sitt en sagan segir að Höskuldur hafi sofið hjá konu sinni hverja nótt eftir heimkomuna. Melkorka ól Höskuldi son sem nefndur var Ólafur. Vildi nú Jórunn að frillan tæki upp verknað nokkurn eða færi í brott ella.
  Einn morgun er Höskuldur var úti gekk hann á mannamál og var þar Ólafur sonur hans og móðir hans. Fékk hann þá skilið að hún var ekki mállaus. Sagði hún til sín og sagðist vera dóttir Mýrkjartans Írlandskonungs og hafa verið hertekin fimmtán vetra gömul.
  Litlu eftir að þetta gerðist var Melkorka að draga skóklæði af Jórunni. Keyrði Jórunn sokkana um höfuð Melkorku en Melkorka reiddist og setti hnefann á nasir henni svo blóð var laust. Höskuldur kom að og skildi þær en lét Melkorku eftir það fara og fékk henni þar bústað í Laxárdal sem heitir síðar Melkorkustaðir. (Sjást ennþá tættur húsanna). Fljótlega eftir að Melkorka flutti að Melkorkustöðum var farið að kalla bæinn Hornstaði til háðungar Melkorku sem lýsir því að hún var kölluð hornkerling.

Þórður goddi sem bjó á Goddastöðum bauð Höskuldi að taka Ólaf son þeirra til fósturs og gefa honum allt sitt fé eftir sinn dag því hann átti enga erfingja. Játaði Höskuldur þessu en Melkorku féll mjög þungt. Ólafur ólst upp á Goddastöðum og gerðist svo mikill maður og sterkur að hann fékk kenningarnafnið pá og festist það við hann.

Hrappur sá er áður var nefndur og bjó á Hrappsstöðum gerðist gamall. Hann lagði svo fyrir að dauður yrði hann grafinn lóðréttur í bæjardyrunum svo hann gæti séð yfir híbýli sín. Skömmu síðar dó Hrappur en hann gekk aftur og var svo illvígur að bærinn fór í eyði.

Þá Ólafur pá var uppkomin reið hann eitt sinn til þings með föður sínum. Gengur þeir feðgar frá búð sinni til fundar við Egil Skallagrímsson. Bað Höskuldur Þorgerðar, dóttur Egils fyrir hönd Ólafs. Ekki féll Þorgerði sá ráðahagur að vera gefin ambáttarsyni. Ólafur bjó sig því skarlatsklæðum er Haraldur konungar hafði gefið honum og hafði á höfði hjálm gullroðinn og sverð í hendi er Mýrkjartan konungur hafði gefið honum og gekk til fundar við Þorgerði. Lét hún til leiðast og var brúðkaup þeirra haldið allsköruglega að Höskuldsstöðum. Tókust ástir miklar með þeim Þorgerði og Ólafi. Bjuggu þau á Goddastöðum. Vildi Ólafur stækka bú sitt og kaupa Hrappsstaðalandið. Gekk það eftir og lét Ólafur reisa bæ þar sem Hrappsstaðir höfðu staðið. Var hann svo vel efnum búinn að þegar búfénaður hans var rekinn frá Goddastöðum og yfir að Hrappsstöðum var keðjan óslitin. Fékk bærinn því nafnið Hjarðarholt. En, Hrappur gekk aftur og gerði óskunda. Ólafur tók sér eitt kvöld gullrekið konungsspjót í hönd og gekk með húskarli sínum til fjóss. Tókust þeir þar á hann og Hrappur. Skildi þar með þeim að Ólafur hafði skaft en Hrappur spjótið. Morguninn eftir lét Ólafur grafa upp Hrapp og var hann ófúinn. Þar fann Ólafur spjót sitt. Lét hann gera bál og þar brenndi hann Hrapp. Eftir það varð engum manni mein af afturgöngu Hrapps.

Ólafur og Þorgerður áttu soninn Kjartan og segir í sögunni að hann hafi verið allra manna vænstur þeirra er fæðst hafi á Íslandi. Fóstbróðir hans var Bolli. Ósvífur hét maður og var Helgason. Kona hans hét Þórdís dóttir Þjóðólfs lága. Þeirra dóttir var Guðrún. Hún var kvenna vænst er upp óxu á Íslandi, bæði að ásjónu og vitsmunum. Allra kvenna var hún kænst og best orði farin. Sögu þeirra Guðrúnar og Kjartans ætla ég ekki að rekja hér, hana þekkja flestir.

Þegar Höskuldur kom til Íslands með Melkorku lenti hann í Laxárósi, lét bera farm af skipi sínu en setja skipið fyrir innan Laxá og gerði þar hróf. Þar tjaldaði hann búðir og er það kallaður Búðardalur. Sagan segir að þorpið hafi í fyrstu gengið undir nafninu Undir fjósabökkum þar sem það stendur í námunda við býlið Fjósabakka. Var nafninu breytt í Búðardalur.

Búðardalur er sveitarfélag í Dalasýslu sem stofnað var 1994 við sameiningu margra hreppa.

Flestar Íslendingasögurnar eru skráðar á Vesturlandi svo sem Egilssaga, Sturlunga, Laxdæla og Eyrbyggja.

Í Haukadal var skoðaður bær Eiríks rauða, Eiríksstaðir. Kom í ljós að sumar í hópnum þekktu sögu Eiríks vel og gátu bætt við þann fróðleik sem leiðsögumaðurinn bauð upp á. Að Eiríksstöðum er lifandi sögusýning og tilgátuhús sem byggt er á gömlum rústum. Gamlar íslenskar sagnir herma að Eiríkur rauði hafi búið að Eiríksstöðum. Þar mun hann hafa gengið að eiga Þjóðhildi dóttir Jörundar bónda að Vatni og þar er talið að Leifur heppni og bræður hans séu fæddir.
  Eiríkur þótti illur viðureignar og var gerður útlægur af Íslandi fyrir víga sakir og leitaði þá landa í vestri. Fann hann land er hann nefndi Grænland. Þangað flutti hann með fjölskylduna árið 985 eða 986 og fjöldi fólks fylgdi honum.
  Leifur heppni, sonur hans sem fæddist að öllum líkindum á Eiríksstöðum, varð fyrstur Evrópumanna til að kanna Nýja heiminn eða þau lönd sem við í dag köllum Ameríku. Hann kannaði Vínland árið 1000, fyrstur Evrópubúa, nær 500 árum á undan Kólumbusi. Leifur heppni er því meðal merkustu landkönnuða sögunnar.

Rústir Eiríksstaða voru kannaðar fyrir miðja síðustu öld og aftur 1997-1999. Kom þá í ljós skáli frá 10. öld og eru rústir hans sýnilegar. Skammt frá rústunum var reist tilgátu sem var vígt árið 2000, á 1000 ára afmæli landafunda Leifs í Ameríku. Við bygginguna var lögð áherslu á að styðjast við rústirnar, rannsóknir og fornt verklag.

Í bænum er lifandi safn og fólk klætt að fornum sið fræðir gesti. Þá eru söguskilti á svæðinu og stytta af Leifi eftir Nínu Sæmundsson. Sagan lifnar við á Eiríksstöðum því leiðsögumenn klæddir að fornum sið fræða gesti um söguna og sýna fornt handverk og muni. Góð aðstaða er fyrir ferðamenn, salerni og aðgengi fyrir fatlaða.  Minjagripa- og kaffisala í þjónustuhúsi er á staðnum.

Frá Eiríksstöðum ókum við að Erpsstöðum. Sólin skein en farið að hvessa og leit út fyrir að sólin ætlaði að hylja sig skýjum þá og þegar.

Á Erpsstöðum voru ýmsar framleiðsluvörur búsins til sölu og má þar nefna rjómaís sem hét því virðulega nafni „Kjaftæði“ og þar var einnig að finna skyrkonfekt og osta.

Um rjómabúið Erpsstaði segir að þar sér rekið kúabú með um 60 mjólkurkúm auk geldneyta, alls um 150 gripir.  Til sölu er framleiðslan; rjómaís, skyr og ostar. Fjósaskoðun, kynning á starfssemi kúabús, skoðun bygginga og húsdýra er meðal þess sem stendur gestum til boða. Glerveggir eru í búðinni og sést inn í lausagöngufjósið. Boðið var upp á skoðunarferð en tíminn leyfði ekki nema stutt stopp á þessum áhugaverða stað. Var ferðinni haldið áfram um Miðdali og var þá heldur farið að kólna. Konurnar lét það þó ekki aftra sér að stoppa aðeins til að skála og njóta útiverunnar. Í Landnámssetrið í Borgarnesi náði hópurinn um kl. 18:30 þar sem beið okkar léttur kvöldverður.

Landnámssetur Íslands er í tveimur af elstu húsum Borgarness sem standa í kjarna bæjarins niður við Brákarsundið. Annað er gamalt Pakkhús sem hefur verið friðað og hýsir sýningar Landnámsseturs - Landnáms- og Egilssýningu.

Að afloknum ágætis kvöldverði sem skolað var niður með veigum af ýmsu tagi var haldið heim á leið. Í Mjóddina var hópurinn kominn klukkan 9 og hélt þá hver heim til sín. Kvöldsólin lék við glugga og þil og allar konur kátar og ánægðar með daginn.

Vonandi verður jafn bjart yfir starfi félagsins og var yfir þessum degi.

Gunnhildur Hrólfsdóttir


Comments