Ferðalög‎ > ‎

2014 - Sumarferð í Þórsmörk

Sumarferðin 21. júní 2014 í Þórsmörk.

Þetta sumarið var farin dagsferð í Þórsmörk og mættu 24 konur galvaskar við Mjóddina í bara ágætis veðri.  Það var lagt af stað kl. 10 um morguninn og keyrt eins og leið lá til Þorlákshafnar og beint að kaffihúsinu og galleríinu „Hendur í höfn“.  Þar tók á móti okkur glerlistakonan, held að hún heiti Dagný, og voru margir fallegir glermunir til sölu.  Einnig eru til sölu kryddvörur, sérstök tegund af kaffi og sitthvað fleira í krukkum sem ég náði ekki að spurja um innihaldið.  Ég á örugglega eftir að kíkja þarna við í góðu tómi.  Listakonan var á þessum tímapunkti að leggja síðustu hönd á framleiðslu á verðlaunagripum fyrir Landsmót hestamanna á Hellu sem átti að byrja í vikunni.

Þar næst lá leiðin að Hellu á veitingastaðinn Árhús því þar beið okkur heit kjúklingasúpa með heimabökuðu brauði, mikið sælgæti og þegar við vorum búnar að tæma pottinn, var bara komið með meiri súpu.  Svo ekki fórum við svangar þaðan. Veitingastaðurinn stendur á bökkum Rangárs og er fallegt útsýni yfir ánna frá veröndinni sem snýr að ánni, svo það var tilvalið að taka þar hópmynd af þessum glæsilega hóp.

Svo héldum við áfram saddar og sælar í áttina að Þórsmörkinni.  Það var mikil umferð rútubíla á leið úr Mörkinni, því nóttina áður var Útivist með Jónsmessu-næturgöngu yfir Fimmvörðuháls og mikill fjöldi sem tók þátt í þeirri göngu.  Nú voru allir á heimleið og það tók okkur nokkurn tíma að komast áfram vegna þrengsla á veginum en það tókst að lokum.  Veðrið var orðið alveg dásamlegt, sól og blíða.  Mikið er nú alltaf fallegt í Þórsmörkinni, fjöllin allt umlykjandi og gróðri vaxin næstum upp í topp og svo skartar Eyjafjallajökull yfir öllu sunnan megin.

Við vorum búnar að panta aðstöðu fyrir okkur í Básum hjá Útivist til að snæða nestið og það stóðst allt saman, fengum aðstöðu á þessum fína palli með nestis- borðum svo það væsti ekki um okkur.  Þar var slegið upp veislu með smá Blushi, Sómasamlokum og desertkökum eins og hver vildi og höfðu félagskonur með sér kaffi eða öl.  Svo urðum við líka að syngja svolítið í sólinni áður en við fórum.  Sumar fengu sér göngutúr um nágrennið, gott að labba um þarna í Básunum.  Við ætluðum ekki að tíma að fara frá þessum sælureit, en um kl. 18,oo fórum við að taka saman og koma okkur í rútuna.
 
Það var aftur stoppað á Hellu í bakaleiðinni, því okkur var boðið að koma við á nýja hótelinu, Hótel Stracta og skoða það.  Sólborg hótelstýra tók á móti okkur með kaffi og heitum vínarbrauðum með jarðaberjum og sýndi okkur allt innanhúss sem var tilbúið.  Það var ekki búið að opna hótelið formlega, heldur var leyfi veitt fyrir tökufólki sem stóð að sjónvarpsþáttunum Game of Thrones.  Það var gaman að koma þarna, þetta verður bæði hótel og hostel og útsýnið úr veitingasalnum er mjög fallegt.

Rútan sem við fengum í ferðina var ekta fjallabíll á háum dekkjum og fór léttilega yfir árnar sem voru á leiðinni í Mörkina.  Bílstjórinn var líka alveg frábær, stjanaði við okkur á alla lund og meira að segja sótti tröppu heim til sín á leiðinni út úr bænum til að auðvelda okkur að komast upp í rútuna. 

Svo var keyrt sem leið lá í kvöldsólinni til Reykjavíkur og vorum við komnar í Mjóddina um kl. 21.   

Að lokum viljum við í stjórninni þakka samferðakonunum fyrir skemmtilegan dag. Það er alltaf svo gaman að ferðast með ykkur, aldrei nein vandamál.

Stjórnin.
Comments