Ferðalög‎ > ‎

2011 - Óvissuferð að Reykholti í Biskupstungum

Óvissuferðin 2011

Það voru hressar 42 konur sem mættu  við kirkjuna í Mjódd laugardaginn 9.apríl, kl. 11.00. Þær höfðu ekki hugmynd um hvert þær væru að fara! Veðrið var ekki það allrabesta, rok og rigning en okkur var alveg sama, ætluðum bara að skemmta okkur vel. Við fengum eina félagskonu fyrirvaralaust til að vera fararstjóra, hana Fríðu okkar Hjálmars. og fór henni það vel úr hendi enda þaulvön.
Bilstjórinn var tengdasonur félagskonu (Pellu Þorgeirsd.) úr Heimaey og ekki skemmdi það. Ekið var sem leið lá austur fyrir fjall. Svartaþoka  var á Hellisheiði svo að ekki sá út úr augum. Ákvörðunarstaður var Kaffi Klettur,  Reykholti í Biskupstungum.
Þar var tekið á móti okkur með hvítvíni, hjartahlýju og góðum mat og kaffi á eftir. Eftir matinn var mikið spjallað og Steina, þ.e. vertinn, flutti okkur brag úr sveitinni og við þökkuðum fyrir með því að syngja „Ynsdislega eyjan mín“.
Síðan var farið í verslun sem er þarna með alls konar hönnun og prjónagarn ( prjon.is ) og ýmsum freistingum sem við sumar þurftum að kanna.
Heim var haldið kl. 15.00 og fórum við þá aðra leið fram hjá Laugarvatni yfir Lyngdalsheiði um Þingvöll og komum í Mjóddina kl 16.40.
Comments