Helgarferð Kvenfélagsins Heimaeyjar 25. Og 26. Júní 2011. Tuttugu og átta konur mættu hressar og glaðar í Mjóddinni að morgni 25. júní, í bara ágætis veðri. Lagt var af stað kl. 10 og var ferðinni heitið til Akraness í morgunkaffi hjá Jónu Björgu. Þar beið okkar hlaðið veisluborð með flatkökum, kleinum, smurðu brauði og fleira góðgæti, sem Jóna Björg og Laufey hristu fram úr erminn. Við áttum þar yndislega stund saman í þessu fallega umhverfi við spjall og hlátur og ekki skemmdi veðrið, komin glampandi sól og blíða. Þegar við loksins gátum slitið okkur frá þessum sælustað, var haldið áleiðis til Stykkishólms í gegnum Borgarnes og Mýrarnar, afar skemmtileg leið með fallegri fjallasýn. Þegar til Stykkishólms kom, fórum við auðvitað í fallegu kirkjuna þeirra og sungum „Ó Jesú bróðir besti“ sem við gerum yfirleitt þegar við komum í kirkju á ferðum okkar. Svo vorum við svo heppnar að glæsileg söngkona kom aðvífandi til að æfa fyrir tónleika sem stóðu fyrir dyrum, og var hún alsæl að fá áhreyrendur á æfingunni. Svo röltum við um miðbæinn, skoðuðum m.a. Norska húsið, Eldfjallasafnið og þar urðum við ekki lítið móðgaðar, því það var engin mynd frá Vestmannaeyjagosinu. Annars er þar margt forvitnilegt að sjá. Tíminn flaug áfram og komið var að því að heimsækja Rósu frá Vesturhúsum og Einar manninn hennar, sem buðu okkur til sín að skoða garðinn þeirra. Garðurinn er algjört æfintýri, umkringdur af klettum sem veita gott skjól og svo er Einar búinn að mála á steina, eftirlíkingar af ýmsum húsum í Hólminum og er þeim raðað innan um blóm og tré í garðinum. Þau tóku svo vel á móti okkur, buðu í kaffi og meðlæti. Þar undum við okkur vel í góða veðrinu og náttúrlega sungum við nokkur Vestmannaeyjalög fyrir Rósu áður en við lögðum af stað í áttina að Skógarströndinni. Næst á dagskrá var að finna stað á Skógarströndinni til stoppa og fá smá rósavín í tánna og spjalla saman. Okkur leist vel á að stoppa við Breiðabólstaðarkirkju, fallegt umhverfi og forn kirkjustaður síðan 1563. Þar áttum við skemmtilega stund í sól og birtu. Það var ekki til setunnar boðið, kvöldmaturinn beið okkar að Laugum í Sælingsdal. Þegar þangað var komið og búið að skrá alla í herbergi, drifum við okkur í betri gallann og fórum í kvöldmatinn sem var ágætur, lambaréttur og aplakaka með rjóma í desert. Eftir kvöldmat fengum við afnot af litlum sal sem við höfðum alveg útaf fyrir okkur og drógu nokkrar félagskonur úr pússi sínu, skondnar sögur og kvæði. Það var mikið gaman á þeirri kvöldvöku og mikið hlegið . Það fór vel um okkur á hótelinu og þjónustan var frábær, vildu allt fyrir okkur gera. Eftir morgunmat daginn eftir var haldið af stað og nú var Fellströndin og Skarðsströndin næst á dagsskrá. Fellsströndin er mjög falleg, mikill gróður í brekkum og fallegt að horfa út á Hvammsfjörðinn með sínum óteljandi skerjum. Við komumst ekki út að Dagverðarnes, vegurinn þangað er illfær og alls ekki fær rútum. Það voru einu vonbrigðin í þessari ferð. Næst komum við á Skarðsströndina og þá breytist landslagið, meira um bóndabæi og ræktuð tún. Við stoppuðum á Skarði til að skoða kirkjuna og þar tók á móti okkur ung kona sem fræddi okkur um sögu kirkjunnar. Kirkjan er mjög sérstök, margir fallegir munir frá dögum Ólafar ríku Loftsdóttir, sem bjó á Skarði í byrjun 15. aldar og búið að skrifa margar sögur um þann kvenskörung. Þegar við fórum frá Skarði var farið að líða á daginn og margar orðnar svangar svo við stoppuðum við Skriðuland og þar var hægt að komast á postulín og fá sér pulsu, en sumar biðu með pulsuna þar til við komum til Búðardals. Við kíktum í handverkshúsið í Búðardal og var þar fjölbreitt handverk í boði. Hún Dadda sat ekki iðjulaus í rútunni heldur samdi heilan brag um ferðina, og er hann eftirfarandi:
Svo í framhaldi af kvæði Döddu, kom vísa frá Jónu Björgu:
Palli, bílstjórinn okkar keyrði nú sem leið lá til Reykjavíkur og þökkuðum við honum fyrir ferðina með lófataki og átti hann það sannarlega skilið fyrir góða og örugga keyrslu alla ferðina. Við í ferðanefndinni þökkum ykkur sem voru í ferðinni, fyrir skemmtilega samveru þessa tvo daga. Sólveig Sirrý og Laufey |
Ferðalög >