Sumarferð Kvenfélagsins Heimaey
12. júní 2010. 54 konur mættu galvaskar í dagsferðina okkar, 12. júní s.l., þó veðrið hefði mátt vera betra, en það setti það enginn fyrir sig, enda konurnar vanar misjöfnu veðri. Það var lagt af stað kl. 10 og haldið sem leið lá að vigtinni sem er við vegamótin til Hvalfjarðar. Þar biðu eftir okkur Jóna Björg og Laufey, létu keyra sig þangað frá Akranesi. Laufey var með fullt fat af flatkökum með hangikjöti sem hún var búin að baka handa okkur í nesti fyrir daginn. Svo lá leiðin inn Hvalfjörðinn og Jóna Björg var með ýmsar upplýsingar og frásagnir m.a. að það er sala beint frá býli að Hálsi í Kjós og gamalt útræði í fjörunni þar fyrir neðan sem heitir Maríuhöfn. Einnig er þar að finna elstu steinbrú landsins yfir Bláskeggsá og hæsta foss landsins, Glym í Botnsá. Það er ljómandi fallegt í Hvalfirðinum og gaman að keyra hann.
Þá var kominn tími til að halda áfram og keyra í Skorradalinn í sumarbústað til Margrétar og Ugga. Þau voru svo yndisleg að bjóða okkur að koma til sín og þar gátum við borðað nestið okkar. Þá fengum við loksins flatkökurnar hennar Laufey, aldeilis dásamlegar. Við vorum líka með veislubrauðbakka frá Sóma, gos og konfekt í desert. Og ekki má gleyma blushinu Það var svo gaman að koma til þeirra, þau tóku svo vel á móti okkur, vildu allt fyrir okkur gera. Ekki skemmdi umhverfið fyrir, gróðurin í kringum bústaðinn er svo mikill að það sést varla í næstu bústaði og Skorradalsvatnið rétt fyrir neðan. Það var mikið spjallað og hlegið og auðvitað sungið, mikil gleði hjá okkur. Ótrúlegt að við skyldum allar komast fyrir í bústaðnum en það gekk bara ljómandi vel. Þar sem er hjartarúm þar er alltaf nóg pláss. Ég vona bara að það hafi ekki verið mikil vinna að þrífa eftir okkur, því ekki máttum við fara úr skónum. Við erum þeim hjónum svo þakklátar. Það var erfitt að slíta sig frá Margréti og Ugga en tíminn leið og næst á dagskrá var að hitta Dýrfinnu gullsmið á Akranesi. Hún tók vel á móti okkur og sýndi okkur skartgripina sem hún smíðar, margir mjög fallegir. Ég hefði vel getað hugsað mér að eignast nokkra, en það voru auðvitað þeir dýrustu. Svo var kominn tími til að halda heim eftir skemmtilegan dag og nú átti að fara göngin til baka. Það var smávegis eftir í nammiboxinu og undirrituð ætlaði að bjóða restina eftir að við vorum komnar í rútuna en ég gleymi bara að það var smá upphækkun úr mínu sæti svo ég flaug eftir gangveginum og nammið dreyfðist út um alla rútu. En það var bara tínt upp og borðað, ekki vandamál. Við vorum fljótar í bæinn, með frábæran bíl og bílstjóra sem hugsaði vel um okkur. Enda var honum það uppálagt af tengdamóður sinni sem reyndist vera Perla Þorgeirs og sendi hún okkur kærar kveðjur. Ferðanefndin þakkar kærlega fyrir samveruna þennan eftirminnilega dag. Sólveig Guðjónsdóttir |